3.8.06

nytt blogg

jamm jamm, það er líklega ekki hægt að fara fram á að þjónusta sem er frí virki.

nýtt blogg: http://www.sollalitla.blog.is
komin færsla og allt ;)

1.8.06

hætta að blogga?

Ég held svei mér þá að blogger sé bara búið að ákveða að ég eigi að hætta að blogga. Ég er alltaf að reyna (ok af og til allavega) að blogga en ég get aldrei birt það sem ég skrifa! Alveg óþolandi! Það endar með því að ég færi mig enn um set á vefnum. Er reyndar búin að vera að spá hvort þetta nýja íslenska þarna á mbl.is vefnum sé kannski málið... Æ veit ekki.

Ekki margt að frétta frekar en venjulega. Við fórum í útilegu um síðustu helgi með Bjarteyju og strákunum hennar og það var æðislega fínt. Við hittum þau á Mývatni á laugardagsmorguninn og keyrðum upp í Möðrudal, þar stoppuðum við og fengum okkur nesti og skoðuðum kirkjuna - eins og hægt var, hún var læst. Svo keyrðum við niður í Jökuldalinn og fórum í svona "húsdýragarð", þ.e. bóndabæ sem er með allskonar dýr í búrum. Það var rosa skemmtilegt. Krakkarnir voru alveg upprifnir yfir dýrunum. Þetta var líka mjög fjölbreytt og svona tegundir sem maður sér ekki á hverjum degi, eins og fasanar (reyndar eiga tengdó fasana þannig að við þekkjum þá alveg), kjötkanínur og hreindýr.

Þegar allir voru búnir að skoða nægju sína héldum við áfram og keyrðum í Hallormsstaðaskóg þar sem við tjölduðum (Atlavík). Það var svaka kósý.

Daginn eftir keyrðum við upp á Kárahnjúka og horfðum á mótmælendur leggjast á vegi. Við sáum eiginlega ekki mikið annað fyrir þoku. Ja, ég segi það nú kannski ekki, maður kemst nú eiginlega ekki hjá því að sjá þessar stíflur! Þetta er svo risavaxið! Stórar búkollur (tvíbreiðir vörubílar með mannhæðarháum dekkjum) líta út eins og leikfangabílar uppi á þessu! Við vorum öll sammála um að það hefði verið skemmtilegra að vera á jeppa, maður kemst svo takmarkað þarna um á fólksbíl. En samt snilld að geta allavega séð þetta. Mamma og pabbi ætla uppeftir á Econoline um næstu helgi, ég verð bara að fá að sjá myndir hjá þeim.

Við fórum líka í upplýsingamiðstöðina í Fljótsdal. Það var virkilega fróðlegt. Nema Íris datt og slasaði sig á einhverjum fokking tröppum sem virtust ekki þjóna neinum tilgangi, spurning um að fara í mál við Landsvirkjun? Ég fékk eiginlega nett sjokk þegar ég sá hvernig á að ganga frá affallinu niðri í Fljótsdal! Fyrir þá sem ekki vita verður semsagt gríðarlegt rör inni í Valþjófsstaðafjalli (held að ég fari rétt með örnefnin) þar sem vatnið nær fallhraða. Svo myndast rafmagnið neðst í því röri, inni í fjallinu. Þaðan rennur vatnið svo í stokk út úr fjallinu og út í Lagarfljót. Eins og gefur að skilja er þarna um talsvert vatnsmagn að ræða og mun stokkurinn verða heljarinnar mannvirki. Maður sá þetta ekki alveg fyrir sér þarna í sveitasælunni!

En ég verð að segja að Fljótsdalurinn er ennþá fallegri en mig minnti. Fjöllin þarna eru svo sérstök og falleg! Æi mér finnst eiginlega bara allt þetta svæði æðislegt. Veit ekki hvað það er en svæðið frá Mývatni og austur að Fljótsdal hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Möðrudalur og Jökuldalur og ég tala nú ekki um Breiðdalinn og það svæði sem nýji þjóðvegur 1 liggur í gegnum. Hrikalega flott.

Jæja, þá er að vita hvort ég get birt þetta! Ef ekki þá fer ég NÚNA og bý til nýja síðu!