17.7.06

óskipulagt bloggleysi

Ég veit ekki alveg hvað er búið að vera málið með bloggið mitt undanfarið en mér hefur allavega gengið afspyrnu illa að pósta því sem ég er búin að skrifa. Þannig að ég er búin að skrifa marga pistla en hef ekki getað birt þá. Skrýtið.

Við Íris vorum allavega bara að koma heim úr 6 daga heimsókn til mömmu og pabba á Hvanneyri. Það var alveg ljómandi nema um miðbik heimsóknarinnar fór ég að hafa áhyggjur af ritgerðinni minni. Ég skildi nefnilega tölvuna eftir heima. Gáfuleg... Ég þarf allavega að spýta í lófana og fara að klára þetta helvíti svo að þetta sé ekki svona hangandi yfir mér endalaust.

Annars hef ég verið í mikilli sjálfsskoðun undanfarna daga í kjölfar samtals við hann karl föður minn um slík mál. Ég er með ný markmið í lífinu, að bæta sjálfa mig og hætta að láta annmarka eða persónueiginleika annarra fara í mínar fínustu. Ég ætla líka að æfa mig í að segja það sem ég meina og meina það sem ég segi, þ.e. að vera ekki að láta gamminn geysa um eitthvað bull og vera hreinskilnari. Þetta eru augljóslega háleit markmið og ég býst við því að mér endist ekki ævin til að ná þeim. En það er alltaf hægt að reyna að bæta sig.

Jæja, hef þetta ekki lengra í bili, mín bíður kúkableyja og öskrandi barn sem er að dunda sér við að troða öllu í skiptitöskunni á hausinn á sér (bleyja, sundbolur, smekkur og peysa hafa þegar verið reynd án mikils árangurs).