29.6.06

Kveðum niður verðbolgudraugin!

Já, ég vil að sjálfsögðu leggja mitt af mörkum við að ná tökum á verðbólgunni og mun feta í fótspor Bjarka og fella niður gjaldtöku á blogginu mínu. Áskriftin mun því héðan í frá vera lesendum mínum að kostnaðarlausu. Þetta er fyrst og fremst táknræn aðgerð en til að ná verðbólgunni niður þurfa allir að leggja sitt lóð á vogarskálarnar, hversu lítið sem það kann að vera. Ég mun einnig falla frá fyrirhuguðum innheimtuaðgerðum á hendur þeim lesendum sem hafa ekki hingað til greitt áskriftargjaldið og fella niður uppsafnaðar skuldir þeirra. Sjá nánar um málið á gjaldfrjálsu bloggsvæði Bjarka.

21.6.06

letibloggari

Það er ég.

Netið er búið að liggja niðri hjá okkur í marga daga þannig að ekkert blogg og ekki einu sinni tékkað á email.

Anyhow, lítið að gerast hjá okkur þessa dagana, ég bara nýt þess að vera heima með Írisi. Hún er alltaf að læra eitthvað nýtt, farin að segja mamma og datt - segir reyndar alltaf svona 'dah - tt', ægilega krúttlegt :) Svo er hún alltaf að æfa sig að labba, hún tekur mest svona kannski 6-8 skref þegar hún er að labba í fangið á mér en svona 3-5 ef hún er að labba á milli hluta. Svo erum við búnar að fara mikið í sund undanfarið og það er alltaf ægilega skemmtilegt. Við förum reyndar ekkert í þessari viku af því að við erum báðar með smá kvef. Svo er bara vinna um helgina og líklega þarnæstu helgi líka - sjáum samt til, mamma á afmæli 1. júlí þannig að það gæti verið að maður geri eitthvað sniðugt. Það er samt ekkert stórafmæli, hún er að verða 45 ára, kellan, ung eins og lamb í haga ;)

Vá, ég hlýt að hafa sett met í að vera lengi að skrifa blogg núna, það myndi ekki koma mér mikið á óvart að allt hryndi um leið og ég reyndi að publisha. Ég ætla að fá mér ís.

8.6.06

tilvistarkreppa

Já, ég veit bara ekki neitt í minn haus þessa dagana. Ég veit ekki hvort það er bara af því að ég meika ekki að hugsa um þessa satans ritgerð sem ég á ennþá eftir að klára eða hvort ég er almennt bara að átta mig á einhverju sem ég hefði átt að fatta árið 2003. Ég er allavega ekki að meika tilhugsunina við að verða lögfræðingur. Ég meina, how boring is that?! Hvað á ég eiginlega að gera þegar ég útskrifast? Frá því að ég byrjaði í þessu námi hafa vinir mínir verið að spyrja mig hvernig ég meika eiginlega þetta nám og hvort þetta sé ekki ógeðslega leiðinlegt en mér hefur alltaf fundist námið alveg ágætt. Vandinn er bara að mig langar ekkert að vinna sem lögfræðingur. Ég klára B.A. gráðuna um jólin og þá tekur ML námið við, 2 ár í viðbót í námi sem ég veit ekki ennþá hvernig ég asnaðist í yfir höfuð. B.A. gráða í lögfræði er svona eins og að klára 3 ár í læknisfræði - það gagnast manni alveg voðalega lítið á vinnumarkaðinum. Samt er ég að spá í að fara ekki í ML námið. Ég er ekki viss um að ég vilji safna námslánum í tvö ár í viðbót ef mig langar svo ekkert að verða lögfræðingur. En ef ég klára ekki ML þá verð ég að gera eitthvað annað því að eitthvað verð ég víst að vinna við í framtíðinni. Hvað það á að vera veit ég bara ekki.

6.6.06

Stora Framsoknarmalið

Fyrir nokkrum mánuðum síðan lét ég út úr mér í bríaríi að lýðræði á Íslandi væri djók. Um leið og orðin sluppu af vörum mínum sá ég eftir þeim, ég hafði kveðið of hart að orði að eigin mati. Eftir sveitarstjórnarkosningar og stóra framsóknarmálið undanfarna daga stend ég fast við þessi orð. Ég á ekki orð yfir þessari heimsku Framsóknarmanna að halda að það bjargi virkilega flokknum að skipta um formann! Vandi flokksins er miklu meiri en svo. Það sem flokkurinn hefði þurft að gera til að bregðast við því afhroði sem flokkurin beið í sveitarstjórnarkosningunum er að fara EKKI í sveitarstjórnir um allt land með einn fulltrúa heldur vera eitt kjörtímabil í stjórnarandstöðu og nýta tímann í að byggja upp flokkinn að innan, skýra stefnu hans og sanna fyrir kjósendum að hann standi raunverulega fyrir eitthvað, þ.e. að kveða niður raddir um að flokkurinn sé ekkert annað en samansafn af framapoturum, bandalag um völd. En flokksmenn eru ekki svo klárir. Í staðinn halda þeir áfram að berja höfðinu við steininn og halda að það lækni öll sár að setja viðkunnalegri mann í formannsstólinn.

Stóra Framsóknarmálið er kornið sem fyllir mælinn. Hrókeringar í ríkisstjórninni hafa aldrei verið meira en á yfirstandandi kjörtímabili og nú þegar ljóst er að annar ríkisstjórnarflokkurinn riðar til falls væri það öllum best að boðað væri til kosninga í sumar.

Ég hef talað.




P.S. Er það bara ég eða eru málhöltu börnin í upphafi veðurfrétta á NFS/Stöð 2 nánast eins slæm og @#$ jólakrakkinn í malt og appelsín auglýsingunum?