30.3.06

Mig langar i...

...rauðvín. Ég sit hérna yfir þessari xxx ritgerð sem ég þarf að skrifa fyrir áfangann hjá Tim og það er bara ekkert að gerast! Samt er ég búin að horfa mjög stíft á bókina og tölvuna til skiptis! Ég þarf nefnilega helst að klára þetta af á sem stystum tíma af því að ég lofaði Hróa að hann fengi að vinna í friði framyfir helgi. Ég er að spá í að skokka í ríkið og kaupa mér eins og eina rauðvínsflösku og stúta henni í kvöld um leið og ég stúta ritgerðinni. Metnaðurinn í botni...

28.3.06

Konan a heima aftana motorhjolinu . . . ? ? ?

Alveg frá því ég var pínupons - já ennþá minni en ég er í dag - hef ég verið ákaflega hrifin af mótorhjólum. Þegar ég var svona 8 ára þekkti pabbi strák sem átti Kawasaki ninja sem mér þótti alveg óheyrilega flott og ég ákvað þá að þegar ég yrði stór myndi ég taka mótorhjólapróf og eignast Kawasaki. Mér fannst ekkert sérlega spennandi að taka bílpróf, tók það m.a.s. ekki fyrr en sumarið eftir að ég varð 17 en mótorhjólaprófið ætlaði ég sko að taka um leið og ég yrði 19. Það var áður en ég áttaði mig á því að hlutirnir kostuðu peninga. Ég er ennþá staðráðin í því að taka prófið einhvern tíma og frekar fyrr en síðar, einhvern tíma þegar ég nýt fjárhagslegrar velgengni, eins og talað er um í nýju Glitnisauglýsingunni.

En af hverju er ég að rausa um einhver mótorhjól og auglýsingar? Jú, það er einmitt þessi velgengnisauglýsing frá Glitni. Þar er nefnilega kona sem segir: "velgengni er að lifa hratt" og um leið sýnt myndbrot af einhverri voða sætri stelpu sem situr AFTANÁ mótorhjóli! Hvað er málið með það?! Er það að lifa hratt að sitja aftaná hjá öðrum? Er það velgengni að sitja aftaná hjá einhverjum í staðinn fyrir að vera sjálf við stýrið? Ég þori að veðja að þeim sem gerðu auglýsinguna hafi ekki einu sinni dottið í hug að það væri hægt að sýna fallega konu á mótorhjóli án þess að hafa karlmann til að stýra fyrir hana. Sætar stelpur taka nefnilega ekki mótorhjólapróf. Sætar stelpur sitja aftaná í lífinu og láta aðra stjórna því hvert þær fara. Sætar stelpur njóta ekki velgengni. Þær sitja aftaná.

27.3.06

Jæja!

Ótrúlegt hvað ég þarf alltaf að taka einhver fýlu- og svartsýnisköst reglulega! Ég er búin að vera í fýlu í marga daga en núna nenni ég þessu ekki lengur. Time to cheer up!

Í gær skrifaði ég hálfa ritgerð og einn fyrirlestur á fjórum tímum. Það finnst mér nokkuð vel af sér vikið þó að ég ætli ekki að lofa neinu um gæðin. Núna er ég að reyna að byrja á ritgerð nr. 2 sem ég stefni á að klára á morgun. Þá tekur við ströng B.A. ritgerðarvinna. Hrói spurði í gær hvenær yrði minna að gera í skólanum hjá mér, ég svaraði 1. maí... Það er semsagt mánuður í skil og ég er fyrst núna að reka mig á það að efnið mitt er líklega vandasamara en ég bjóst við. Heimildir eru af afskaplega skornum skammti þannig að þetta er mikil handavinna. En þetta reddast. Hef enga trú á öðru. Sé reyndar ekki fyrir mér að ég muni fara á bretti þessa páskana en það kemur snjór eftir þennan snjó...

DJÖFULLINN! Ég var rétt í þessu að fá væna slettu af kaffi í augað!!! Já, í augað! Helvítis einnota drasl kaffimál hérna í skólanum! Dísös! Hvernig er hægt að vera svona mikill klaufi?! Ég er farin að þurrka kaffið úr andlitinu á mér :@ :@ :@

24.3.06

Fuss!

Ég held að ég loki bara þessu bloggi. Get ekki séð að umferðin um það sé gríðarleg....

Fusss.

21.3.06

Hmmmm

Fann þetta hjá Bjarka

Johari

sniðugt

20.3.06

Ammli

Ég átti afmæli í gær, mjög látlaus afmælisdagur. Vaknaði um sjöleytið eins og alla aðra daga til að sinna litla krúttinu, lagði mig aftur þegar Hrói fór að sýna nógu mikið lífsmark til að ég gæti treyst því að hann næði skilaboðunum, ég ætlaði ekki á fætur kl. 7 á afmælisdaginn minn! Var nú samt drifin á lappir klukkutíma síðar, þá var Hrói búinn að útbúa krúttlegasta afmælismorgunverð sem ég hef séð! Það var nefnilega eiginlega ekkert til þannig að morgunmaturinn samanstóð af hrökkbrauði með smjöri, osti og rifsberjahlaupi og hjónabandssælu með 23 kertum :) Svo fékk ég afmælisgjöf pakkaða inn í álpappír af því að hann fann ekki gjafapappírinn :)

Eftir morgunmat og afmælissímtal við mömmu skruppum við í sveitina til tengdó. Planið var að skilja Írisi eftir og fara að hjóla en svo var komið ógeðslegt veður þannig að við eyddum deginum að mestu innandyra. Íris var í banastuði, bakkaði um alla stofuna hjá ömmu sinni - hún getur nefnilega ekki farið áfram ennþá á maganum þannig að hún bakkar bara ;) Svo sýndum við henni hænurnar og fasanana, henni fannst það ekkert smá merkilegt! Hlakka til í sumar að sýna henni kindur, kanínur, hross og kýr. Tengdamamma ákvað að hún þyrfti endilega að gefa mér einhverja afmælisgjöf, náði í mynd inn í stofu og spurði hvort ég vildi eiga hana. Þetta er alveg pínuponsulítil grafíkmynd sem listamaðurinn gaf henni sem jólakort, mjög flott.

Mjög afslappaður afmælisdagur semsagt, enda allir eitthvað svo bissí þessa dagana og enginn tími fyrir afmælisveislur. Stefni nú samt á að hafa smá kaffiboð einhvern tíma í vikunni. Annars hélt litla systir mín upp á afmælið sitt í gær en hún átti afmæli 13. febrúar þannig að það er líklega aldrei of seint að halda afmælisveislu :)

17.3.06

Mannvonska

Ég er í áfanga núna sem fjallar um eiturlyfjavandann, hvað sé til ráða og hvort lögleiða eigi fíkniefni. Mér finnst þetta mjög erfið spurning. Mér finnst svosem alveg í lagi að fólk eyðileggi sitt eigið líf á fíkniefnum ef það eyðileggur ekki líf annarra í leiðinni. Út frá því sjónarmiði myndi ég segja að það væri í rauninni allt í lagi að afnema bann við neyslu fíkniefna. Vandinn er bara að ég held að meirihluti fíkniefnaneytenda skemmi líf miklu fleira fólks heldur en þess eigið. Fíkniefnaneytendur eignast börn eins og annað fólk og af því að það er svo hræðilega erfitt að taka börn af fólki þá elst allt of mikið af börnum upp við hræðilegar aðstæður. Ég held að fíkniefni skemmi dómgreind fólks þannig að það fer að gera hræðilega hluti sem það myndi annars aldrei gera, t.d. að vanrækja og misnota börn, beita ofbeldi o.s.frv. Ég held að eiturlyfjaneysla geti valdið varanlegum andlegum skaða og ég held að fíkniefnaneytendur ali af sér fleiri fíkniefnaneytendur.

Hins vegar er ég ekki endilega sannfærð um að þær aðferðir sem beitt er núna til að stemma stigu við fíkniefnavandanum séu þær einu réttu. Hollendingar vilja meina að þar í landi séu færri vímuefnaneytendur en annarsstaðar og að þar sé glæpatíðni mun lægri en í nágrannalöndum þeirra. Hins vegar er vímuefnaneysla e.t.v. sýnilegri þar af því að hún er ekki beinlínis bönnuð. Í rauninni finnst mér hollenska leiðin ekki svo vitlaus og ég held að það sé tiltölulega auðvelt að taka upp svipaðar ráðstafanir á Íslandi. Það sem ég myndi vilja sjá samhliða væri að úrræði fyrir börn fíkniefnaneytenda væru fleiri, að það væri auðveldara að veita þeim aðstoð og að fjarlægja þau úr óviðunandi aðstæðum. Það yrði að gerast með auknu eftirliti með fíkniefnaneytendum og kannski er slíkt eftirlit einmitt ekki fyllilega raunhæft fyrr en við sættum okkur við að í samfélaginu muni verða fíkniefnaneytendur um ókomin ár og einbeitum okkur frekar að því að takmarka skaðann en að stefna að "fíkniefnalausu Íslandi árið 2000" eða 2020, 2050, 2100 o.s.frv.

En hvað veit ég svosem, ég er bara aumur laganemi sem hef litla reynslu haft af þessari svörtu hlið samfélagsins.

15.3.06

Tiny person i 2. veldi :S

Já, elskurnar mínar, ég minnkaði í morgun. Þið kunnið að hvá, en þetta er hinn harði raunveruleiki. Í mörg ár hef ég haldið því statt og stöðugt fram að ég sé 160 cm en í morgun komst ég að því að ég er víst ekki nema 157 cm. Það þýðir að ég er bara 91 cm stærri en 6 mánaða gömul dóttir mín og heilum 25 cm lægri en Hróbjartur. Þetta er mikið áfall.

Annars er lítið að frétta nema gríðarleg hamingja með nýja ökutækið. Við eigum svo fínan bíl! Jei!!! Ég fór í gær og skrúbbaði hann hátt og lágt, held að ég hafi aldrei vandað mig svona mikið að þrífa bílinn minn. Svo þegar hann var þornaður notaði ég lakkdolluna sem fylgdi með honum (svona lítil dolla með litlum pensli í, alveg eins og naglalakk) og blettaði í smá lakkskemmdir á húddinu, svona pínuskemmdir eftir grjót. Vá, ég hef aldrei átt bíl sem mig langar að hugsa eins vel um og þennan :)

14.3.06

Helgin o.fl.

Við skruppum suður í Borgarfjörð að sækja bílinn um helgina. Skrapp svo með mömmu til Sódómu á laugardaginn, það var reyndar algjör ör-ferð, fór bara rétt til að skjótast í Ikea til að komast að því að það sem ég ætlaði að kaupa var ekki til - eins og venjulega - og sækja sjónvarp til Bjarteyjar og Magga. Gríðarlega heppilegt þegar fólk í kringum mann er að sameina búslóðir svona :) Við erum núna komin með gamla sófasettið hans Magga og gamla sjónvarpið hans, svo fengum við líka kerru hjá þeim um daginn af því að þau keyptu nýja úti í Flórída og Bjartey bauð okkur eldhúsborðið sitt gamla líka ef við nenntum að koma því norður. Það endar með því að íbúðin okkar verður full af gamla dótinu þeirra :) Það er gott að spara.

Annars splæstum við í göngugrind handa litlu dömunni fyrir helgi. Ég var orðin svo gríðarlega spennt að kaupa hana að ég skoðaði greinilega ekki nógu vel í búðinni! Ég keypti semsagt göngugrind fyrir einhvern 6000 kall sem virkar svo ekkert almennilega! Ég er brjáluð út í sjálfa mig! Ég hélt að ég væri að gera svo góð kaup, þetta er einhver ofur-göngugrind með stoppurum undir þannig að barnið getur ekki hlaupið fram af stigapalli og svoleiðis, allskonar fancy dót framaná og fínerí. Svo er þetta Graco sem er náttúruelga voða fínt merki... En ég hefði greinilega átt að taka krakkann með mér í búðina! Í fyrsta lagi nær hún varla niður þegar grindin er í lægstu stillingu, samt er sko hægt að hækka grindina helling! Ég hélt nú að stelpan mín væri ekkert óvenjulega lítil. Þetta fer mjög mikið í taugarnar á mér af því að það er nú ekki eins og svona göngugrindur nýtist mjög lengi! Svo til að bæta gráu ofan á svart þá rennur grindin ekkert sérstaklega vel þegar barnið er komið í hana þannig að það er allt of stíft fyrir hana að sparka sér áfram! Samt er nú ekki eins og það sé teppi eða eitthvað á gólfunum hjá okkur, bara ósköp venjulegt parket! Ég er brjáluð! Það versta er náttúrulega að ég get engum nema sjálfri mér um kennt! Grrrrr!

9.3.06

Happy happy joy joy!

Við vorum að fjárfesta í þessu líka glæsilega eðal ökutæki! Gríðarleg hamingja! Sá heppni (bíllinn) er VW Golf Syncro 4WD, 1998 módel, keyrður litla 89.000 km. Hann er rauður, með skyggðar rúður, álfelgur, tvo umganga af dekkjum, og fullt af fancy aukadóti. Gallinn er að þetta glæsilega ökutæki var að finna í höfuðborginni svo að nú þurfum við að gera okkur ferð suður að sækja gripinn. Stefnan er að fá far suður á morgun með Bjarna ofurlöggu og eyða helginni með familíunni og keyra svo norður aftur á nýja bílnum á mánudagsmorgun. Ágætisplan barasta.

Reyndar ætti ég að vera að lesa fyrir próf í sveitarstjórnarrétti í augnablikinu en get varla hætt að huga um þennan bíl! Sussubía. Renni yfir glósurnar og fer svo heim að horfa á Desperate housevives. Verst hvað ég er búin að missa af mörgum þáttum, þarf að fara að redda mér þeim á DVD.

Hei! Já, ég kynnti mér hreyfirými Háskólans í dag! Það var alveg hreint ljómandi. Nema eitt. Tækin þarna eru hönnuð fyrir eitthvað stærra fólk en mig. Ég gat ekki notað sumt af því að ég bara passaði ekki! Alveg sama þó að ég stillti allt á minnstu mögulegu stillingu! En ég komst semsagt að því að ég er í nákvæmlega jafn hörmulegu formi og ég bjóst við, þarf að æfa stíft ef ég ætla að koma mér í form fyrir vorið.

8.3.06

Politiskur Oskar

Í Morgunblaðinu í dag er frétt um að kristilegir íhaldsmenn í Bandaríkjunum séu óánægðir með úrslitin á Óskarsverðlaunahátíðinni.

Akademían hefur miklu minni áhuga á að skemmta fólki en að reyna að móta menninguna og ná pólitískum markmiðum.

Þetta segir Family Research Council, kristileg hreyfing í Bandaríkjunum. Concerned Women for America, kristileg samtök kvenna sem halda í heiðri hefðbundin fjölskyldugildi kvartaði sáran yfir því að engar þær myndir sem samtökin höfðu lagt blessun sína yfir hefðu unnið til verðlauna en í staðinn unnu myndir um samkynhneigða kúreka, japanskar hórur og klæðskiptinga.

Nú hefur yfirleitt verið talað um að Óskarsverðlaunahátíðin sé mikið bling og lítið innihald, margfalt meira 'commercialized' en evrópskar kvikmyndahátíðir eins og Cannes-hátíðin og BAFTA-verðlaunin. Ádeila er greinilega komin í tísku í Hollywood. Loksins.

5.3.06

Jæja

Úff, ég held að ég verði að fara að taka netkortið úr vélinni minni. Það kemur alltaf af og til upp í umræðuna að börn ættu að fá takmarkaðan tölvutíma á dag, ég held að ég þurfi takmarkaðan nettíma á dag. Ég er búin að sitja á bókasafninu í tvo tíma og ég er búin að lesa örfáar blaðsíður af sveitarstjórnarrétti en alveg hreint slatta af bloggi, fréttum og öðru sem má alveg bíða. Ég held að ég sé með netfíkn. Mér líður bara illa ef netið dettur út - ég gæti nefnilega hugsanlega kannski þurft að googla einhverju. Af því að það má nefnilega ekki bíða... Engin sjálfsstjórn! Kannski er hægt að fá einhvern svona búnað sem læsir fyrir alla netnotkun nema google og tölvupóst nema í einhvern takmarkaðan tíma á dag... Það ætti allavega að vera til!

Anyhow, það var ljómandi samkvæmi hjá henni Ásu litlu í gær, stakk reyndar af um miðnætti vitandi að ég myndi þurfa að vakna með ljósinu mínu fyrir kl. 7 og læra allan daginn, en fínt engu að síður. Við fengum sjálflýsandi armbönd! Vííí! Og Tópas skot í boði Vallýar, alveg ljómandi drykkur þar á ferð, svolítið eins og áfeng hóstasaft en hver segir að það geti ekki verið hið besta mál. Tengdó komu að passa fyrir okkur og Bjartey og Maggi kíktu við fyrir kvöldmat. Eintóm gleði og hamingja.

Annað sem er ekki eintóm hamingja eru öll þessi bílslys undanfarið. Ekkert smá ömurlegt slysið sem varð á föstudagsnóttina hérna á Ak þar sem einn strákur dó og annar liggur á gjörgæslu. Keyrði framhjá slysstaðnum í morgun, þeir dúndruðu bílnum bara á steinvegg, ekki gaman það. Mér fannst líka hrikalegt slysið þar sem stelpan missti stjórn á bílnum og dó þarna í síðustu viku. Og hvað er líka málið með að krakkar séu alltaf að stela bílum núna?! Það bara líður varla sá dagur að maður frétti ekki af einhverjum bílstuldum! Ég veit ekki hvort unglingar séu eitthvað verri núna en í gamla daga en mér finnst það ótrúlegt að það hvarfli ekki að þessum krökkum að það sé kannski ástæða fyrir því að það þarf bílpróf til að keyra bíl... og hver á svo að borga það þegar þau skemma bílana af því að þau kunna ekki að keyra? Krakkafífl sem hugsa ekki um annað en rassgatið á sjálfum sér!

4.3.06

Í ökkla eða eyra

Þegar ég var í fæðingarorlofi -sem var í 5 mánuði, nota bene- var aldrei neitt um að vera. Ég var meira eða minna bara heima hjá mér. Allir vinir mínir voru að svitna yfir réttarhagfræði, Jessup-málflutningskeppninni eða einhverju álíka og ég vildi ekki vera að trufla þetta fólk þannig að ég var meira eða minna bara ein eða með fjölskyldunni. Núna, eftir að ég er byrjuð aftur í skólanum er alltaf eitthvað. Afmæli um hverja helgi, árshátíðir, vísindaferðir og ég veit ekki hvað og hvað. Í kvöld er t.d. bæði árshátíð FSHA og afmæli hjá Ásu pjásu sem varð 22+1 árs á miðvikudaginn. Ég ákvað að beila á árshátíðinni enda ekki oft sem Ása verður 22+1 árs - eða bara nokkur maður yfir höfuð. Flestir verða nefnilega 23 ára næst á eftir 22.

Annars vil ég benda á þarfa hugleiðingu um flugur innandyra á blogginu hennar Vilborgar. Mæli líka bara með því að fólk lesi bloggið hennar Vilborgar að staðaldri. Það er hollt.

2.3.06

Mig langar i nyjan bil

Ég er orðin ógeðslega pirruð á því að vera á druslu! Við skruppum austur í Aðaldal í fyrradag til tengdó og það munaði minnstu að við kæmumst ekki alla leið. Allt í einu heyrðum við bara klonk! klonk! klonk! Bíllinn drap samt ekkert á sér en stýrið varð ægilega þungt. Hrói keyrði út í kant og opnaði húddið og þá kom í ljós að það vantaði bara eitt hjól framaná vökvastýrisdæluna í vélinni! Hrói fór að leita að hjólinu en án árangurs, fyrir utan að það hefði ekki skipt neinu þó að hann hefði fundið það af því að þetta hjól var náttúrulega búið að vera að dunda sér að mjakast fram af pinnanum sem hélt því í vélini og eyðileggja hann. Sem betur fer átti bóndi nokkur leið hjá sem dró okkur heim til sín og reddaði okkur minni viftureim sem var hægt að tengja framhjá vökvastýrisdælunni þannig að við komumst allavega heim í sveit. Þar fékk Hrói lánaðan bíl og fór á Húsavík að vinna en tengdapabbi reddaði nýrri vökvastýrisdælu og skipti um hana.