Ég átti afmæli í gær, mjög látlaus afmælisdagur. Vaknaði um sjöleytið eins og alla aðra daga til að sinna litla krúttinu, lagði mig aftur þegar Hrói fór að sýna nógu mikið lífsmark til að ég gæti treyst því að hann næði skilaboðunum, ég ætlaði ekki á fætur kl. 7 á afmælisdaginn minn! Var nú samt drifin á lappir klukkutíma síðar, þá var Hrói búinn að útbúa krúttlegasta afmælismorgunverð sem ég hef séð! Það var nefnilega eiginlega ekkert til þannig að morgunmaturinn samanstóð af hrökkbrauði með smjöri, osti og rifsberjahlaupi og hjónabandssælu með 23 kertum :) Svo fékk ég afmælisgjöf pakkaða inn í álpappír af því að hann fann ekki gjafapappírinn :)
Eftir morgunmat og afmælissímtal við mömmu skruppum við í sveitina til tengdó. Planið var að skilja Írisi eftir og fara að hjóla en svo var komið ógeðslegt veður þannig að við eyddum deginum að mestu innandyra. Íris var í banastuði, bakkaði um alla stofuna hjá ömmu sinni - hún getur nefnilega ekki farið áfram ennþá á maganum þannig að hún bakkar bara ;) Svo sýndum við henni hænurnar og fasanana, henni fannst það ekkert smá merkilegt! Hlakka til í sumar að sýna henni kindur, kanínur, hross og kýr. Tengdamamma ákvað að hún þyrfti endilega að gefa mér einhverja afmælisgjöf, náði í mynd inn í stofu og spurði hvort ég vildi eiga hana. Þetta er alveg pínuponsulítil grafíkmynd sem listamaðurinn gaf henni sem jólakort, mjög flott.
Mjög afslappaður afmælisdagur semsagt, enda allir eitthvað svo bissí þessa dagana og enginn tími fyrir afmælisveislur. Stefni nú samt á að hafa smá kaffiboð einhvern tíma í vikunni. Annars hélt litla systir mín upp á afmælið sitt í gær en hún átti afmæli 13. febrúar þannig að það er líklega aldrei of seint að halda afmælisveislu :)