26.2.06

2 blogg a dag koma skapinu i lag

Ég get ekki orða bundist. Ég er að reyna að skrifa fyrirlestur upp úr grein sem birtist í Úlfljóti fyrir 5 árum síðan og ég hef aldrei vitað annað eins! Er þetta blað ekki ritrýnt?! Þessi grein nær hreinlega engri átt í heimskulegheitum. Í fyrsta lagi er ítrekað vitnað til 2. mgr. 48. gr. stjskr. sem er ekki til. Ég leitaði logandi ljósi að þessari blessuðu málsgrein og fann hana loks í orginal útgáfu af stjórnarskránni, þeirri sem birtist í Stjórnartíðindum árið 1944. Hún var semsagt afnumin árið 1991, 10 árum áður en þessi grein var skrifuð. Hvað er málið með að skrifa ritgerð og styðjast við stjórnarskrá sem er úrelt fyrir 10 árum síðan? Svoleiðis gerir maður ekki! Nú hefði ekki verið neitt mál fyrir þennan blessaða laganema í Háskóla Íslands sem skrifaði greinina að finna sér nýlega stjórnarskrá, t.d. á althingi.is en nei, hann gerir það ekki.

Til að bæta gráu ofan á svart er þessi grein í mjög ámóta stíl og ritgerðir sem ég skrifaði á 1. ári, svona ekki endilega allsstaðar mjög gáfulegar ályktanir og lítið um rökstuðning. Hverjum datt eiginlega í hug að gefa þessa ritgerð út? Sama þó að Úlfljótur sé skólablað. Hefði ekki verið skynsamlegt að einhver kennari hefði lesið þessa ritgerð yfir og leiðrétt helstu villur áður en hún fór í opinbera birtingu? Það hefði ég allavega fengið gert ef ég ætlaði að fá grein birta í blaði sem helstu lögfræðingar landsins fá í áskrift.

...eru þetta kannski talin eðlileg vinnubrögð við lagadeild Háskóla Íslands?

Bjorkveðjuhatið

Tóti hélt febrúarfest eða bjórkveðjuhátíð í gærkvöldi í tilefni af afmælinu sínu. Hann keypti einn bjór af hverri einustu tegund af bjór í dósum og nokkra flöskubjóra líka. Ég komst að því að þetta með að blanda tegundum gildir greinilega líka um að blanda bjórtegundum, ég hef sjaldan verið eins þunn á ævinni. Það var mjög gaman í gær og mjög skemmtilegt að smakka öðruvísi bjóra en maður drekkur venjulega en samt velti ég því fyrir mér í dag hvort þetta sé þess virði. Ég hef augljóslega misst hæfileikann til að fá mér í glas án þess að líða hörmulega á eftir, spurning um að bara segja þetta gott og láta bjórkveðjuhátíðina standa undir nafni.

23.2.06

Kynlifsmyndbönd

Hvað er málið með að allar stjörnurnar taki upp kynlífsmyndbönd af sér? Og geymi þau á glámbekk? Það eru bara alltaf einhver kynlífsmyndbönd að leka út á netið! Ég held að þetta sé ekki alltaf alveg óvart... Smells like conspiracy!

22.2.06

Tiðindaleysi

Það gerist ákaflega fátt markvert hjá mér þessa dagana. Sveitarstjórnarréttur er alveg nákvæmlega eins lítið áhugaverður og maður ímyndar sér, hvorki verri né skárri. Er að fara að skrifa fyrirlestur um sjálfstæði sveitarstjórnarmanna í starfi, stefni að því að vinna hann í dag og á morgun og nýta föstudaginn fyrir B.A.-ritgerð. Það væri gríðarlega jákvætt ef eitthvað færi að gerast í þeirri deildinni. Svo er stefnan tekin á að endurskipuleggja heimilið um helgina og taka svefnvenjur fjölskyldunnar (sem er auðvitað stjórnað með harðri hendi af yngsta fjölskyldumeðliminum) til gagngerrar endurskoðunar. Árangurinn lætur vonandi ekki á sér standa.

Í gær mótmæltu nemendur og starfsfólk Háskólans á Akureyri fjársvelti því sem stofnunin sætir. Er það vel að einhver tók af skarið í þessum efnum og löngu tímabært. Vonandi skila mótmælin einhverju enda stefnir allt í voða ef ekki verður gripið til aðgerða sem fyrst. Eins og talsmaður hagsmunahóps háskólanema sagði réttilega, "það er kominn tími til að stjórnvöld átti sig á því að háskólinn er ekki kostnaðarliður heldur fjárfesting." Velflest okkar munu skila þeim fjármunum sem fara í að mennta okkur margfalt til samfélagsins á komandi árum.

15.2.06

Klukkeddiklukk

Jæja best að sýna Rósu minni að ég lesi bloggið hennar :)

4 störf sem ég hef unnið við um ævina:
*Hirðing og ýmislegt fleira á Nautastöðinni á Hvanneyri
*Gjaldkerastörf í Landsbankanum
*Barþjónn á Húsi málarans, sællar minningar
*Ýmislegt tilfallandi á búinu á Hvanneyri, allt frá því að flokka bækur á bókasafninu til heyskapar :)

4 bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur og aftur...
*Pirates of the Caribbean
*Sleepy Hollow
*Cry Baby
*Monsters Inc.

4 staðir sem ég hef búið á:
*Osló
*Reykjavík
*Hvanneyri
*Reykjahverfið

4 sjónvarpsþættir sem mér líkar:
*My name is Earl
*House
*Desperate Housewives
*The O.C.

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
*London, baby! Bezt í heimi!
*Paris
*Berlin
*Tromsø, Norge


4 síður sem ég heimsæki daglega (fyrir utan blogg):
*mbl.is
*google
*news.bbc.co.uk
*althingi.is (uppá síðkastið) hversu sorglegt er það?

4 matarkyns sem ég held uppá:
*nautakjöt - nánast hvernig sem er, bara ekki of mikið eldað!
*gott íslenzkt lambakjöt - kryddlegið svo að það sé nú örugglega ekkert ullarbragð af því (bjakk)
*salat á Sólon, alltaf ljúffengt
*Peng's - besti asíski matur á landinu!

4 bækur sem ég hef lesið nýlega:
*Dark Tower serían eftir Stephen King
*Black House eftir Peter Straub og Stephen King - snilldarbók, mæli hiklaust með henni, sérstaklega fyrir Dark Tower-aðdáendur
*The Legend of Zorro eftir Isabel Allende
Æ, man ekki meir, bæti bara við einni sem mig langar að lesa:
*The Talisman eftir Peter Straub og Stephen King - undanfari Black House

4 staðir sem ég vildi heldur vera á núna:
*Heima að knúsa stelpuna mína
*London, baby!
*Á bretti í Ölpunum
*Bahamas eða álíka hlýr og fallegur staður!

Vá, þetta var langt! Jæja, það er komið kaffi.

14.2.06

Ógeð a frettum

Þeir sem hafa fylgst með blogginu mínu í einhvern tíma (ef við gefum okkur að einhver nenni að lesa vitleysuna í mér til lengri tíma) hafa kannski tekið eftir ákveðinni stefnubreytingu í skrifum. Hér áðurfyrr lagði ég mig fram um að skrifa metnaðarfulla og gáfulega pistla um þjóðmálin og það helsta sem fréttnæmt mátti teljast utan úr heimi. Núna skrifa ég bara eitthvað bull úr lífi mínu. Semsagt, ég hef misst allan metnað. Tvær ástæður eru fyrir þessu helstar, annars vegar hef ég tekið að stórefast um eigið gáfnafar og finnst bara ekkert skynsamlegt koma úr kollinum á mér lengur. Hins vegar er ég komin með algjört ógeð á fréttum. Nú kunna lesendur mínir að hvá en þetta er hinn bitri sannleikur. Ég nenni ekki að lesa enn eina frétt af prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Krummaskuðshreppi og ég held að ég muni æla ef ég heyri eina frétt í viðbót um meinta tilvist loðnustofnsins. Erlendar fréttir eru ekki mikið skárri. Meira eða minna niðurdrepandi fréttir af stríðsástandi, flóðum, jarðskjálftum og hungursneyð. Ég verð bara þunglynd af að lesa um þetta. Kannski er þetta einhver postpartum viðkvæmni í mér en ég verð bara miður mín þegar ég heyri af öllum þessum hörmungum. Ég er bara í áfalli yfir því hvað fólk er grimmt og heimskt og stöðugur fréttaflutningur af hörmungum fyllir mig vanmáttarkennd. Mér finnst ég svo óendanlega lítil þegar ég hugsa um allan þennan risavaxna vanda sem við höfum skapað okkur. Gróðurhúsaáhrif, ill meðferð á börnum og dýrum, stríð, hungursneyð... hvað erum við eiginlega að gera sjálfum okkur?

13.2.06

Leti dauðans

Ég er búin að vera í alheimsletikasti í allan dag. Ég byrjaði á því að vakna of snemma í morgun við vekjaraklukkuna, fatta að ég var ekki með bíl og ákveða að nenna ekki í skólann. Dómgreindin alltaf upp á sitt besta í morgunsárið... Druttlaðist loks í skólann um 10-leytið til þess eins að sitja í tíma í rúman klukkutíma og fara svo heim aftur. Ætlaði svo þokkalega að vera dugleg að læra í dag og gerði nokkrar mjög misheppnaðar tilraunir til að byrja að lesa en komst í öll skiptin að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti bráðnauðsynlega að setja í þvottavélina eða uppþvottavélina, endurstaðsetja örbylgjuofninn (not kidding, ég fór að endurraða í eldhúsinu), eða kíkja aðeins á mbl.is. Núna er klukkan semsagt að detta í 6 og ég er búin að lesa svona 6 bls. í dag. Í staðinn eyddi ég síðasta klukkutímanum í að lesa bloggið hans bróður míns og bloggin hjá öllum vinum hans! Vel farið með tímann...

Ég held að ég sé komin með stjórnsýsluréttarfóbíu. Þetta er bara of leiðinlegt fag! Ég hef aldrei verið góð í að læra eitthvað utanað. Hvernig datt mér eiginlega í hug að það væri góð hugmynd að læra lögfræði? Oh well, ég á bara 5 annir eftir...

8.2.06

Lesrymið heilaga

Ég sit á lesherbergi bókasafns Háskólans og stari löngunaraugum á tölvuna. Ég reyni að einbeita mér að því að lesa en það situr ekkert eftir. Ég kíki enn og aftur fram í óæðri enda bóksafnsins en það eru enn öll borð upptekin. Ég reyni að glósa á gamla mátann en kemst að því að þriggja ára fartölvunotkun hefur gert mig nánast óskrifandi. Auk þess er það svo seinlegt að ég sé að með þessu áframhaldi næ ég kannski að fara yfir 30 síður í dag, af þessum 300 sem ég þyrfti helst að lesa í vikunni. "Ætti ég? Myndi einhver taka eftir því?" hugsa ég eins og ég sé að íhuga að fremja glæp. En ég geri ekkert af því að hér í hinu heilaga lesrými Háskólans á Akureyri er það glæpur að glósa á fartölvuna sína. M.a.s. á ofurhljóðlátu og notendavænu (svo ekki sé minnst á fallegu) Apple fartölvuna sem hefur fylgt mér það sem af er háskólanáminu. Fyrir aftan mig heyri ég skrjáf í blöðum og bókum, nefsoghljóð, hósta, pískur og fliss. Ég hugsa: "af hverju læt ég það afskiptalaust að fólk spjalli saman og flissi á hinni heilögu lesstofu þegar ég má ekki glósa á tölvuna mína?"

7.2.06

Stress og pirringur

Ég held að ég sé að andast úr stressi. Ég veit ekki einu sinni lengur út af hverju ég er svona stressuð! Og ég var að fatta að ég gleymdi að hringja í svefnráðgjafaþjónustuna sem er bara með símatíma á mánudögum og þriðjudögum á milli 3 og 5. Andskotinn! En aftur að stressinu. Sko. Ég hef ekkert til að vera neitt sérlega stressuð yfir. Það er ekkert próf í skólanum fyrr en á fimmtudaginn í næstu viku, aldrei þessu vant er ég ekki farin að saxa á yfirdráttinn þó að ég sé búin að borga alla reikninga... life is good. En samt er ég algjörlega að fara yfirum. Kannski ég ætti að reyna að draga úr koffínneyslu... eða bara sofa. Ég þrái ekkert meira en að sofa heila nótt án þess að vera vakin einu sinni. SOFA! Það er ekki skrýtið að það sé notað sem pyntingaraðferð að leyfa fólki aldrei að sofa fullan svefn. Þetta er viðbjóður. Annars erum við mæðgur að fara suður um næstu helgi, kannski ég láti mömmu bara sjá um stelpuna og sofi sjálf annarsstaðar. Ef ég gæti þá eitthvað sofið. Ætli ég yrði ekki ægilega stressuð yfir því að barnið væri að halda vöku fyrir ömmu sinni alla helgina... það væri allavega mjög dæmigert fyrir mig, að geta aldrei treyst neinum nema sjálfri mér til að hafa hemil á þessu barni. Talandi um control-freak!

Helgasti dagur þjoðarinnar

...er dagur heilags Júróvisjons.

Ég er að hlusta á opinn síma hjá Rás 2 um Stóra Júróvisjonmálið. Sylvía Nótt rokkar. Það er svo einfalt. Fólk er bara of heimskt til að fatta það. Ein kelling reyndi að halda því fram að Sylvía Nótt ætti ekkert erindi í Júróvisjon vegna þess að þetta er "virðuleg keppni"! Hvar hefur hún verið undanfarin ár? Alveg frá því að Páll Óskar setti keppnina á annan endann fyrir nokkrum árum síðan hefur þetta eingöngu verið keppni í að hneyksla, ögra og toppa alla hina. Hver er betur til þess fallin en Sylvía Nótt? Fyrir utan það að þetta er bara langflottasta lagið í keppninni og definately eina lagið sem ég hef séð ástæðu til að finna á netinu. Ég hef ALDREI áður hlustað á júróvisjonlag mér til skemmtunar! Ég fer að gráta ef hún vinnur ekki forkeppnina.

5.2.06

Alveg typiskt jurovisjonlag

Rosalega tekur fólk þessa blessuðu keppni hátíðlega! Stjórnsýslukærur og læti bara. Ég man nú ekki í svipinn hvað maðurinn heitir sem kærði þátttöku lagsins ?Til hamingju Ísland" í flutningi Sylvíu Nætur (lesist Nóttar ef ykkur sýnist svo) í undankeppni júróvisjon söngvakeppninnar en mér finnst hann ekki alveg halda rökum. Hann sagði í viðtali í kvöldfréttum NFS að ef honum hefði verið sagt að hann mætti senda inn 5 lög gegn því að eitt annað lag fengi sérmeðferð þá hefði hann ekki tekið þátt. Maður hefði haldið að hann væri svona fúll yfir þessu af því að hann telur að Sylvía Nótt (sem hann kallaði reyndar ?Ágústu Evu" með þjósti) eigi meiri möguleika en hans lag/lög vegna þess að það lak út á netið 2-3 dögum fyrir áætlaðan frumflutning í keppninni. Annars stæði hann varla í því að leggja fram stjórnsýslukæru vegna málsins. En ef hann segist ekki myndu hafa tekið þátt í keppninni hefði hann vitað fyrirfram að eitt lag fengi meinta sérmeðferð þá hlýtur það að þýða að hann sé aðallega fúll yfir því að hafa tekið þátt. Þá gæti hann nú alveg eins bara dregið sitt framlag/framlög til baka, er það ekki? Ég sé ekki lógíkina í þessu hjá kallinum. Auðvitað er hann bara í fýlu af því að hann samdi ekki eins flott lag og Þorvaldur Bjarni og fékk ekki eins ógisla fræga söngkonu til að syngja lagið, skiluru!

1.2.06

Hversu vitlaus er hægt að vera?!

Vá, blogg nr. 2 þennan morguninn! Ég bara verð að deila því með lesendum mínum hvað ég er óendanlega vitlaus.

Sko, þegar við skötuhjúin vorum að reyna að ákveða hvað hún dóttir okkar ætti að heita þá gerðum við tvo lista í sitthvoru lagi yfir öll nöfn sem okkur fannst falleg og strikuðum svo út öll nöfn sem voru ekki á báðum listunum. Svo fórum við að púsla. Við vorum búin að spá fram og aftur og allt í einu datt mér í hug Íris Þöll og fannst það bara fullkomið! EN mér fannst það líka ægilega kunnuglegt. Þannig að ég fór inn á hagstofan.is og komst að því að það væri bara enginn Íslendingur sem bæri þetta tvínefni! Frábært! Þannig að við vorum rosa sátt og skírðum barnið. En mér fannst samt alltaf að það hefði verið ein stelpa í bekknum mínum í Kvennó sem hét eitthvað svipað. Svo núna síðustu vikur hef ég endurnýjað kynni mín við tvær stúlkur sem voru með mér í bekk í Kvennó og þær könnuðust líka við þetta þannig að ég fór að googla. Kemur ekki í ljós að helvítis hagstofan er bara með lista yfir Íslendinga sem eru búsettir á Íslandi! Þannig að ég skírði barnið mitt í höfuðið á stelpu sem ég var með í bekk í menntaskóla án þess að fatta það! Hveru vitlaus er eiginlega hægt að vera?! Sem betur fer er þetta voða fín stelpa og ægilega sæt þannig að það kemur ekki að sök en mér finnst þetta samt eiginlega svolítið mikið kjánalegt!

Stjornsyslurettur o.fl. - eða eitthvað

Ég var búin að skrifa ægilega langan pistil og svo þegar ég fór að lesa hann yfir þá sá ég að hann var bara of leiðinlegur! Þannig að ég strokaði hann bara út. Það er semsagt fátt spennandi að gerast hjá mér núna, stjórnsýsluréttur á fullu - ekki skil ég hvernig einhver gat skrifað 1000 síðna doktorsritgerð um þetta efni án þess að hljóta varanlega örorku úr leiðindum. Þetta er ekki beinlínis mest spennandi efni sem ég hef komist í tæri við.

Annars eigum við Hrói afmæli í dag, við erum búin að vera að reyna að ákveða í svona mánuð hvað við ætlum að gera í tilefni dagsins og niðurstaðan er að við höfum ennþá ekki hugmynd! Ég reikna að sjálfsögðu með því að hann ætli að koma mér eitthvað glæsilega á óvart þegar ég kem heim úr skólanum, búinn að þrífa alla íbúðina frá toppi til táar og elda dýrindis kvöldverð ;) Æ ætli það sé svo nauið hvort við höldum upp á þetta akkúrat á deginum eða næstu helgi...

Jæja, aftur að vanhæfisástæðum í stjórnsýslurétti, vúhú!