2 blogg a dag koma skapinu i lag
Ég get ekki orða bundist. Ég er að reyna að skrifa fyrirlestur upp úr grein sem birtist í Úlfljóti fyrir 5 árum síðan og ég hef aldrei vitað annað eins! Er þetta blað ekki ritrýnt?! Þessi grein nær hreinlega engri átt í heimskulegheitum. Í fyrsta lagi er ítrekað vitnað til 2. mgr. 48. gr. stjskr. sem er ekki til. Ég leitaði logandi ljósi að þessari blessuðu málsgrein og fann hana loks í orginal útgáfu af stjórnarskránni, þeirri sem birtist í Stjórnartíðindum árið 1944. Hún var semsagt afnumin árið 1991, 10 árum áður en þessi grein var skrifuð. Hvað er málið með að skrifa ritgerð og styðjast við stjórnarskrá sem er úrelt fyrir 10 árum síðan? Svoleiðis gerir maður ekki! Nú hefði ekki verið neitt mál fyrir þennan blessaða laganema í Háskóla Íslands sem skrifaði greinina að finna sér nýlega stjórnarskrá, t.d. á althingi.is en nei, hann gerir það ekki.
Til að bæta gráu ofan á svart er þessi grein í mjög ámóta stíl og ritgerðir sem ég skrifaði á 1. ári, svona ekki endilega allsstaðar mjög gáfulegar ályktanir og lítið um rökstuðning. Hverjum datt eiginlega í hug að gefa þessa ritgerð út? Sama þó að Úlfljótur sé skólablað. Hefði ekki verið skynsamlegt að einhver kennari hefði lesið þessa ritgerð yfir og leiðrétt helstu villur áður en hún fór í opinbera birtingu? Það hefði ég allavega fengið gert ef ég ætlaði að fá grein birta í blaði sem helstu lögfræðingar landsins fá í áskrift.
...eru þetta kannski talin eðlileg vinnubrögð við lagadeild Háskóla Íslands?