Dyri heimur!
Jæja, fyrsti dagurinn í skólanum að baki... ja, eða þannig, sit á bókasafninu og ætti að vera að byrja að lesa Hæfisreglur Stjórnsýslulaga eftir Pál Hreinsson, tíuþúsund króna bókarflykki sem mig langaði mjög lítið að kaupa. En jú, það lítur út fyrir að þetta sé hverjum manni nauðsynlegt þannig að ég fór í Bókval áðan og skuldsetti mig til æviloka. Það hlýtur að vera farið að telja í hundraðþúsundköllum sem maður er búinn að eyða í skólabækur í gegnum tíðina. Ojbara.
Það var samt alveg merkilega ánægjulegt að mæta í skólann í morgun. Ég var reyndar bara búin að sofa í svona 5 tíma þar sem hún dóttir mín er ekki að samþykkja það að maður eigi að sofa alla nóttina, henni finnst alveg nóg að taka smá blund svona á milli níu og ellefu og vera svo í stuði frá ellefu til svona eitt, tvö. Við erum að fara að tala við svefnráðgjafa. Annars er alltaf svo uppörvandi að tala við pabba, ?Já, þú varst einmitt svona fyrstu sex árin!" er viðkvæðið hjá honum... Fuss. Ég minnist þess ekki að ég hafi verið neitt annað en indælisbarn! ...ég minnist þess reyndar ekki mikið að hafa verið barn yfir höfuð fram að svona 4 ára aldri en það breytir ekki afstöðu minni!
Jæja, best að hætta þessari vitleysu og fara að gera eitthvað gáfulegt eins og að skoða póstinn minn, fara á msn, taka blogghringinn... nei annars ætli ég verði ekki að druttlast til að fara að lesa stjórnsýslurétt :@