28.10.04

So many distractions, so little time

Undanfarna daga hefði ég átt að vera að byrja á ritgerð fyrir Garrett Barden. Það hef ég ekki gert. Í stað þess hef ég verið að kynna mér áður óþekkt skúmaskot internetsins. Einhvern veginn virðist ég alltaf leiðast inn á einhverjar stórkostlegar slóðir þegar ég á að vera að gera eitthvað annað. Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að fjarlægja netkortið úr tölvunni minni, það myndi kannski stuðla að bættum námsárangri. Ég á svona love-hate relationship við netið. Mér finnst það undursamlegt hvað það inniheldur mikið af gagnlegum upplýsingum og afþreyingarefni en það er líka algjör tímaþjófur. Það er til endalaust magn af sniðugu drasli þarna. Teiknimyndasögur, leikir, blogg, fréttaskýringar... oh joy, oh joy! Flest er þetta eitthvað sem maður getur afgreitt á hálftíma en af og til rekst maður á eitthvað undursamlegt sem tekur mikið lengri tíma að kanna til hlítar. Þannig rakst ég á skrif Gords nokkurs, tölvuleikjabúðareiganda í Vancouver í Kanada. Þar lýsir hann af stórkostlegri mælsku viðskiptum sínum við miður gáfað fólk, þjófa, börn, foreldra og aðra sem á vegi hans verða. Allir sem hafa unnið einhversskonar þjónustustörf kannast við að vera í þeim aðstæðum sem hann lýsir og vildi óska þess að það hefði mátt taka á þeim eins og Gord gerir.
 • Acts of Gord
 • 25.10.04

  Helgin

  Þetta var ákaflega afslöppuð helgi. Ég gerði mest lítið, þreif íbúðina til málamynda, fór út að skokka í Kjarna, bakaði, afslöppun bara. Á föstudagskvöldið elduðum við rómantískan dinner, nautakjöt með bernaissósu, hrísgrjónum og ægilega góðu salati. NAMM NAMM NAMM. Á eftir gláptum við svo á Mulholland Drive, ákaflega sérkennilega mynd sem ég er ennþá að pæla í.
 • Internet Movie Database
 • gefur henni 7.9 af 10 mögulegum og finnst mér það nú e.t.v. fullmikið af hinu góða, enda er myndin ákaflega hæg og mörg atriði sem mega að mínu mati missa sín. Sagan sjálf er kannski ekki nógu safarík til að halda uppi tveggja tíma mynd. Hún er samt alveg þess virði að glápa á, þó ekki fyrir óþolinmóða eða athyglisbrostna.

  Laugardagskvöldinu var varið mikið til á sama hátt og föstudagskvöldinu. Þá bakaði ég dýrindis pizzu (sem nota bene heita Heitar pressugerskökur með áleggi í Matreiðslubók Helgu Sigurðar) og svo gláptum við á Spiderman 2. Jiminn hvað sú mynd er dræm. Hún er enn "tölvugerðari" en fyrri myndin, illa leikin og kjánalegar setningar skjóta upp kollinum hvað eftir annað. Atriðið sem bjargar myndinni er þegar Spiderman heldur hálfum húsvegg uppi svo að hann kremji ekki ástina hans og hún er nýbúin að komast að því hver hann er. Í stað þess að koma með einhverja vellulega setningu sem hefði verið ákaflega í takt við myndina þá stynur gaurinn upp "This is really heavy!" SNILLD! Algjör saver.

  Í gær ákváðum við svo að þessi innivera gæti ekki gengið öllu lengur svo að við skruppum í Kjarna að skokka. Þegar við komum heim gerðist ég enn húsleg og skellti í eina skúffuköku sem heppnaðist með eindæmum vel, þó ég segi sjálf frá. Ég held að hann Hróbjartur hafi étið hálfa uppskrift á einu bretti í gærkvöldi með miklum yfirlýsingum um að héðan í frá ætti ég ekki að gera neitt annað en að baka :)

  Góð helgi en nú verð ég líka að taka afleiðingunum og hætta þessu slóri og koma mér að verki í ritgerðinni hjá Garret Barden.

  20.10.04

  Rettindafræði

  Jæja, þá er þriðja lotunámskeið vetrarins hafið, réttindafræði hjá Garrett Barden, Íranum sem minnir á Sean Connery. Fyrsti tíminn var í gær og lofar góðu, þetta er indæliskarl sem virkar þannig á mig að mig langar að standa mig vel hjá honum. Vona að það gangi hjá mér, það er á brattan að sækja með heimspekinámskeiðin (geisp).

  Sú breyting hefur orðið á stundaskránni okkar að núna erum við alltaf í tímum eftir hádegið, sem sökkar. Það er ekki mikið stuð að vera í skólanum til fjögur og fimm á daginn. Ég reyni að líta á þetta sem tækifæri til að efla sjálfsagann, að koma því í rútínu að vakna á morgnana til að fara á bókasafnið, og enn fremur að koma einhverju í verk á bókasafninu. Það hefur hentað mér ágætlega að nota tímana á morgnana til að vakna. Maður þarf líklega bara að venjast þessu en kl. 16 í gær var ég alveg komin með nóg af skóla og fannst ég vera búin að vera endalaust lengi í skólanum þótt ég væri bara búin að vera þar í þrjá tíma.

  19.10.04

  Malbik tynt

  Lögreglan á Snæfellsnesi lýsir eftir u.þ.b. 100 m af malbiki sem hvarf aðfaranótt þriðjudagsins 19. október. Grunur leikur á að óprúttnir aðilar hafi rúllað upp malbikinu og flutt það annað á meðan lögreglan átti í önnum vegna veðurofsa. Þeir sem hafa orðið varir við undarlegar malbikunarframkvæmdir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á Snæfellsnesi.

  14.10.04

  Irak, Israel og önnur atakasvæði

  Þar sem ég er ekki áskrifandi að neinu fréttablaði, fæ ekki einu sinni Baugstíðindi lengur, og er fjóra daga í viku á júdóæfingu þegar annað fólk liggur yfir sjónvarpsfréttunum, þá svala ég fréttaþörfinni aðallega á netinu. Ég fer inn á mbl.is á að giska fimm sinnum á dag að meðaltali, einu sinni á BBC News, af og til á CNN.com og jafnvel á vísi.is eða ruv.is ef ég er sérlega fréttaþyrst.

  Það gerist á að giska einu sinni á dag að efsta fréttin á mbl.is er af dauðsföllum og hörmungum hér og þar í heiminum. Ég nenni ekki einu sinni að lesa þessar fréttir. "Sex látnir í sprengingum í Bagdad", "Tveir látnir og tíu slasaðir eftir sjálfsmorðsárás í Jerúsalem", Hundruða saknað eftir flóð", "Hungursneyð í Darfur"... þetta dynur á manni á hverjum degi og maður er orðinn algjörlega ónæmur. Á tímabili las maður allar fréttir af gíslatökum í Írak og fylgdist náið með framvindu mála en nú er það orðið daglegt brauð líka. Maður kippir sér varla upp við það þótt menn séu afhöfðaðir hægri vinstri í beinni útsendingu. Hvað er langt síðan menn misstu töluna á þeim sem hafa látist í bardögum í Írak eftir að innrásaraðilinn lýsti stríðinu lokið?

  Hvað stoðar það að fylgjast með þessu hvort eð er? Er það ekki athygli sem þeir eru að sækjast eftir með því að veiða fréttamenn? Kannski er best bara að hætta algjörlega að fylgjast með. Hvað get ég svosem gert?

  Mér finnst það ótrúlega sorglegt að maður sé orðinn svo ónæmur fyrir hörmungum að maður verður hálf pirrðaður þegar fréttavefirnir eru uppfullir af stríðsfréttum af því að þá er ekkert spennandi að lesa. Af og til fæ ég svo samviskubit yfir því að hafa ekki sterkari samúð en þetta og fer að skoða það hvað ég geti gert til að hjálpa. Mig hefur alltaf langað rosalega mikið til að fara sem sjálfboðaliði til átakasvæða og reyna að láta eitthvað gott af mér leiða en það er alltaf eitthvað sem stoppar. Það er skóli eða vinna, lán sem þarf að borga af... og svo endar með því að maður fer ekki fet og hefur meiri áhuga á að lesa um hugsanlega rangfeðrun Noregskonungs en framvindu á átakasvæðum.

  12.10.04

  Hið meinta fri

  Það er frí í skólanum alla þessa viku, við eigum að nota hana til þess að lesa fyrir næstu tvö námskeið og hlaða batteríin. Ég er meira búin að vera í því að hlaða batteríin. Með öðrum orðum; ég er löt. Ég sit t.d. núna heima hjá mér og er búin að hanga á netinu í klukkutíma eða meira, varla komin úr náttfötunum, hvað þá meira. Ég svaf líka frameftir í morgun. Ætlaði á fætur kl. 9 (fór seint að sofa) en slökkti á klukkunni og svaf til 10:15. Ég þoli ekki þegar ég sef svona lengi. Hefði átt að druttlast á lappir með Hróa í morgun. Hugsa að ég geri það á morgun, ég verð að fara að koma einhverju í verk. Frí sem maður á að nota til að vinna í eru líka ekki alveg minn tebolli. Ég vil bara annað hvort vera að gera eittthvað eða vera í fríi og vera þá að gera eitthvað skemmtilegt. Til að bæta ofan á gleðina þá fór ég til læknis á föstudaginn vegna verkja í öðrum fætinum og hann sagði mér að ég mætti ekki fara á júdóæfingu í nokkra daga, þannig að ég er að drepast úr eirðarleysi. Ég ætla að fara í kvöld þó að það sé kannski ekki ráðlegt. Það er bara geðheilsan eða líkamleg heilsa. Ét bara bólgueyðandi og þá reddast þetta. Jæja ætli það sé ekki best að hella sér í lesturinn, Leviathan bíður og svo Pure Theory of Law *gubb*. Ef Kelsen væri á lífi myndi ég sko þokkalega ekki bjóða honum í afmælið mitt.

  7.10.04

  Jaguar fæst fyrir litið

  Tveir jagúarbílar, mikið keyrðir en í góðu standi, fást fyrir lítið, hafa alltaf verið þjónustaðir og geymdir inni. Meðfylgjandi: tveir til fjórir ökumenn, nokkrir tugir starfsfólks, auka dekkjaumgangar, verkstæði og varahlutir. Upplýsingar fást hjá Ford.