29.9.04

dc++ er latinn

Yes yes, the rumors are true, lagt hefur verið hald á tölvur og stafrænt efni hjá 12 einstaklingum víðsvegar um land. Þar fór efnilegasta framlag Íslendinga til þjófnaðar og dreifingar á stafrænu efni via internet. Einhvern veginn finnst manni lögreglan hafa gengið of langt með þessum aðgerðum, í huga almennings er stuldur á tónlist og bíómyndum og öðru stafrænu dóti orðinn sjálfsagður réttur fólks og listamennirnir sem reyna að leita réttar síns eru fégráðugir dónar. Hversu margir ætli hafi tekið System of a Down á orðinu og stolið plötu þeirra, "Steal This Album"? Hve margir ætli hafi ákveðið að það væri prinsip atriði að kaupa EKKI plötur Metallica eftir málaferlin við Napster og stela frekar tónlistinni? Annars benda félagarnir í Korn á ágætis punkt í laginu "Y'all Want a Single" þar sem þeir mótmæla ofríki útgáfufyrirtækja. Listamennirnir fá bara brotabrot af því sem við neytendurnir borgum fyrir diskana og því erum við aðallega að styrkja útgáfurisana. Ég væri alveg til í að borga einhverjar krónur fyrir diska ef ég vissi að ágóðinn rynni til listamannanna en ekki einhverra jakkafataklæddra kókaínfíkla sem vill svo til að eiga hlut í útgáfufyrirtæki. En að borga hátt í 2500 kall fyrir einn geisladisk finnst mér glórulaust og geri ég slíkt ekki nema á sérstökum hátíðis og tyllidögum.

23.9.04

Þrividd rokkar

Frá því að ég man eftir mér hef ég verið tiltölulega sjónlaus á hægra auganu. Ég man eftir augnablikinu þegar ég uppgötvaði þetta. Ég var á að giska þriggja eða fjögurra ára og ég stóð í eldhúsinu í pínulitlu stúdentaíbúðinni okkar í Noregi og opnaði og lokaði augunum til skiptis á meðan ég horfði á lampa í horninu á stofunni. Með öðru auganu var hann alveg skýr en með hinu bara klessa. Ég reyndi að sýna mömmu þetta en það var greinilegt að henni fannst bara ekkert athugavert við þetta (sem hefur líklega stafað af því að hún sá ekki í gegnum mín augu). Umheimurinn varð ekki var við þennan eiginleika sjónar minnar fyrr en ég var orðin sex ára og var mér þá tilkynnt að ég væri með svokallað letiauga sem hefði verið hægt að laga hefði það uppgötvast þegar ég var fjögurra ára (I tried to tell you!) en nú væri það orðið of seint og ég myndi líkast til aldrei sjá eðlilega með þessu auga. Frábært. Síðustu 15 árin hef ég semsagt staðið í þeirri trú að ég gæti ekki séð vel og hef sætt mig við þann veikleika minn að skynja t.d. þrívídd ekki sem skyldi. Með árunum hefur sjónin á vinstra auganu versnað til muna og geng ég því með gleraugu eða linsur dags daglega. Fyrir tveimur vikum fór ég svo til sjóntækjafræðings til að fá mælda í mér sjónina svo að ég gæti fengið mér nýjar linsur. Kemur þá ekki í ljós að ég er með massíva sjónskekkju (áður hafði mér verið tjáð að hún væri of lítil til að það borgaði sig að rétta hana). Þegar sjóntækjafræðingurinn er búinn að stilla af sjónskekkju og almenna sjóndepurð og lætur mig horfa á hið margfræga stafaspjald verða þau undur og stórmerki að ég sé nánast fullkomlega með hægra auganu! Ég hafði ekki hugmynd um að ég gæti séð svona vel með þessu auga og hef satt að segja aldrei svo ég muni gert það. Í dag fékk ég svo rándýrar sjónskekkjulinsur og ég er búin að ganga um í allan dag eins og manneskja sem hefur aldrei fyrr litið dagsins ljós. Ég sé í þrívídd! Ég skynja fjarlægðir og dýptir á allt annan hátt en áður. Næsta skref verður að gera tilraunir með það hvort ég geti gripið bolta og annað lauslegt sem hent er að mér.

21.9.04

Stjornskipunarrettur gleður hjartað og lifgar upp a tilveruna

Reyndar er það helber lygi. Um þessar mundir sit ég námskeið í samanburðarstjórnskipunarrétti. Mér finnst stjórnskipunarréttur mjög áhugaverður, sérstaklega þar sem okkur er kenndur hann á grundvelli samanburðarkenninga, þannig að við fáum að skoða og kynna okkur stjórnarskrár fleiri landa, bera þær saman og sjá hvernig þær virka. Hins vegar skyggir óneitanlega á námskeiðið og dregur úr námsviljanum að þessir tímar eru óhemjuleiðinlegir, hvort sem það er kennslunni eða áhugaleysi nemenda að þakka. Í augnablikinu ætti ég að vera að vinna í svokölluðu heimaprófi, verkefni sem samanstendur af þremur illa orðuðum og skringilegum spurningum sem ég gæti svarað öllum í einni málsgrein. Vandamálið er bara að ég þarf að skrifa tvær síður um hvert atriði, ekki hálfa. Þessu skal svo skilað á föstudaginn og fáum við aðrar þrjár spurningar öðru hvoru megin við helgina. Ég er að reyna að rífa sjálfa mig upp úr þessu neikvæða viðhorfi, af því að ég veit að efnið er skemmtilegt, en það svífa einhverjar neikvæðar bylgjur yfir þessum áfanga. Ekki bætir úr skák að viðfangsefnið er eitthvað sem verðskuldar góðan tíma og ítarlega skoðun, bæði í tíma og utan, en við fáum hvorugt. Námskeiðið skal keyra í gegn á þremur vikum og þar af er þegar heil vika farin til spillis. Ég veit að mér er í sjálfsvald sett að gera þetta áhugavert en einhvern veginn heillar Pocket Tanks, hinn snilldarlegi leikur, mun meira en bókin German Legal System and Laws.

15.9.04

Ríki Framsóknarflokksins er hafið!

Jæja, er ekki við hæfi að draga fram Framsóknarfánann? Æi ég veit það samt ekki. Það virðist engu máli skipta hverju hver tilheyrir í þessari ríkisstjórn. Dóri búinn að draga til baka skoðanir sínar um inngöngu í ESB, þetta geldist allt smám saman. Það liggur við að manni finnist það óhugsandi að annar maður en Dabbi kóngur sitji á toppnum, hann hefur verið forsætisráðherra frá því áður en ég byrjaði að fylgjast með pólitík. Man óljóst eftir því þegar hann tók við stólnum, man að hún móðir mín hafði á orði að maðurinn virtist halda að hann gæti stjórnað Alþingi eins og hann stjórnaði borginni, með frekju og hávaða. Og viti menn, það gat hann. Eftir að hafa setið í mettíma á forsætisráðherrastóli biðst hann hálfgert afsökunar á frekjunni í útvarpsviðtali síðasta daginn. Kannski það sé aðgerðin sem hafi þessi blíðkandi áhrif á hann... Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Dóra gengur í forsætisráðherrastólnum, Davíð er allavega ekki maðurinn sem maður óskar sér að taka við af, sérstaklega ekki þegar hann heldur áfram í ríkisstjórn.

14.9.04

Íslendingar fyrir útlendinga

Þannig vill til að í einhverju bríaríi í fyrra tókst mér að troða mér í stöðu alþjóðafulltrúa skólans. Við erum tvö sem gegnum þessu virðulega embætti og eigum við að sjá um að kynna Ísland og íslenska menningu fyrir skiptinemum skólans. Fyrsta skrefið í þá áttina var að sjálfsögðu að draga þau út á djammið og reyndist það auðvelt enda samanstendur hópurinn af tveimur Dönum, fjórum Finnum, tveimur Norðmönnum og tveimur Rússum, sem hafa reyndar ekki látið sjá sig neins staðar fyrir utan bókasafnið hingað til. En hitt fólkið er flest mjög þægilegt viðureignar og nægir að rétta því bjór til að allir séu happy.

Í gær var svo ætlunin að fara í hvalaskoðun frá Húsavík, um þriggja tíma sigling um Skjálfanda í opnum bát. Vegna misskilnings og gleymsku var hann Kalli, hinn alþjóðafulltrúinn, of seinn með bílinn sem skyldi notaður til að ferja fólkið tið Húsavíkur og þrátt fyrir glæfraakstur mikinn þá náðum við ekki til Húsavíkur í tíma og sáum við á eftir bátnum þar sem hann var á leið út úr höfninni. Týpískt fyrir Íslendinga, hugsaði ég með mér. Útlendingarnir virtust flestir hafa húmor fyrir þessu skipulagsleysi. Einn Finninn fór að hlæja og sagði að nú hefði hann allavega eitthvað til að segja vinum sínum frá og annar hafði á orði að tíminn virtist vera ákaflega fljótandi hugtak fyrir Íslendingum. Daninn sem var með í för var með sannkallað Pollýönuviðhorf og sagði: "At least we won't get seasick now!"

Við Kalli þurftum að sjálfsögðu að upphugsa eitthvað snilldarráð til að bæta fyrir þessi mistök okkar og var fyrsta skrefið að skoða það eina sem er virkilega markvert að skoða á Húsavík, kirkjuna. En NEI! Viðgerðir standa nú yfir á ytra byrði kirkjunnar þannig að það eina sem er þar að sjá eru stillassar og kirkjuhelvítið var læst í þokkabót þannig að það var ekki einu sinni hægt að njóta hennar að innan. Nú voru útlendingarnir farnir að hlæja allsvakalega að Íslendingum.

Við dóum þó ekki ráðalaus og brunuðum austur í Ásbyrgi, þar sem heldur lifnaði yfir liðinu. Sérstaklega fannst útlendingunum mikið koma til þjóðsögunnar um tilurð Ásbyrgis, enda allt saman Skandinavar og vel kunnug norrænni goðafræði. Því næst renndum við upp að Dettifossi, að sjálfsögðu vestanmegin enda er fossinn mikið fallegri þeim megin, að því er mér finnst. En djöfull var ég búin að gleyma því hvað það er langt þarna uppeftir! Það reyndist samt alveg þess virði þar sem í ljós kom að tveir úr hópnum, Dani og Finni, höfðu aldrei séð foss áður! Það er ýmislegt sem manni dettur ekki í hug að geti verið merkilegt þegar kemur að eigin landi og eigin reynslu. Það hefði líklega verið alveg nóg að renna að Goðafossi og til baka. Að lokum komum við aðeins við í hljóðaklettum en höfðum því miður ekki tíma til að skoða svæðið almennilega enda þurfti fólk að vera mætt á hinar og þessar æfingar, auk þess sem margir voru orðnir hungraðir og blautir eftir úðann frá fossinum.

Ég held að á endanum hafi ferðin verið success þrátt fyrir hvalaleysið og skipulagsleysið séríslenska. Reyndar hef ég það eftir áreiðanlegum heimildum að skyggnið hafi verið lélegt á Skjálfanda í gær og hvalirnir séu hvort eð er að mestu farnir annað til vetrardvalar.

9.9.04

Haustboðinn goði

Fyrir utan flóð auglýsinga um 30 km hámarkshraða og börn á leið til skóla á stórhættulegum götum landsins, svo ekki sé talað um yfirþyrmandi verðstríð ritfangaverslana, þá er augljósasti haustboðinn, og að mínu mati sá besti, batnandi sjónvarpsdagskrá. Nú eru að hefja göngu sína svo margar þáttaraðir sem krefjast áhorfs að ég hef áhyggjur af því að ég eigi ekki eftir að hafa tíma til að sinna náminu.

America's next top model 2 hóf göngu sína í gærkvöldi, við mikinn fögnuð okkar Vigdísar. Þar er klukkutími farinn af miðvikudagskvöldum.

Ný þáttaröð af CSI hóf göngu sína á mánudaginn. Það er eitthvað við þessa þætti, maður veit alltaf hvernig þeir fara og tæknin er way beyond possibilities en ég má ekki missa af þætti. Þetta er ávanabindandi.

Í næstu viku hefjast þættir að nafni 'The L Word' sem ég vona eiginlega að séu leiðinlegir af því að ég hef ekki tíma fyrir fleiri þætti í einni viku.

Survivor verður líklega að sitja á hakanum þetta árið, enda orðið frekar þreytt sjónvarpsefni að mínu mati. Alltaf gaman að horfa á fólk stinga hvert annað í bakið samt...

The Practice koma sterkir inn eftir að Bobby Donnel lét sig loksins hverfa, og mætti halda að þættirnir séu skyldunámsefni meðal laganema því að það virðist aldrei neinn missa af þætti.

Law & Order SVU eru alltaf áhugaverðir, þó að þeir séu ekki alveg raunsæir og frekar keimlíkir. Það er sama með þá og með CSI - það er einhver dulin sálfræði sem heldur manni við skjáinn...

Auk þessarra þátta eru gríðarmargir gamanþættir sem munu berjast við námið um athyglina í vetur, According to Jim, Yes Dear, svo ekki sé minnst á hina stórgóðu og sýrðu þætti Drews Carrey.

So much bad TV, so little time!

6.9.04

Nytt utlit

Fannst vera kominn tími á að droppa "íslenskt grænmeti - já takk" lúkkinu. Veit ekki alveg hvað ég á eftir að þola þessar doppur lengi en við sjáum til. Annars er bara brjálað að gera, ég nenni ekki að læra í augnablikinu, fékk eiginlega nóg af kennilegum stjórnskipunarrétti í morgun. Það hefur reyndar hitt og þetta á daga mína drifið síðan ég bloggaði síðast, enda gríðarlangt síðan.

Fyrir viku síðan fór ég með köttinn minn til dýralæknisins og lét lóga henni. Það var hræðilegt. Ég grét svo mikið að ég kom ekki upp einu einasta orði. Klíníkdaman fattaði samt alveg hvað var að gerast þannig að orð voru óþörf. One cat down. En það var ekki staðar numið þar, vegna þess að gamla kisan mín, sem ég er búin að eiga síðan ég var 6 ára, greindist með krabbamein um daginn og þar sem hún móðir mín treysti sér ekki til að skera hana upp sjálf (enda ekkert vit að sóttvarnadýralæknir skeri upp kött) þá notfærði hún sér samböndin og kom kettinum undir hendurnar á færasta gæludýralækni á landinu, að hennar sögn. Það dugði samt ekki til og kötturinn dó á skurðarborðinu. Two cats down. Dæmigert fyrir mig að missa báða kettina mína í sömu helvítis vikunni.

On a happier note, þá skiluðum við fyrsta heimaprófi vetrarins á föstudaginn og aldrei þessu vant þá var ég í tíma, skilaði tveimur tímum á undan áætlun og var bara nokkuð sátt. Auk þess þá lét ég loksins verða af því að fara að æfa júdó, nokkuð sem mig hefur langað að gera í mörg ár. Mamma gamla er geðveikt stolt enda lagði hún línurnar í familíunni, æfði júdó hjá einhverjum insane Japana á sínum yngri árum. Hún ætlar m.a.s. að arfleiða mig að júdógallanum sínum (vona bara að ég passi í hann, hún var(er) svoddan písl). Gleði og hamingja þar á ferð.