23.8.04

Frjosemisgyðjan a ferð og flugi

Ólétta virðist vera landlægur sjúkdómur um þessar mundir. Hvert sem litið er eru konur með bumbur eða barnavagna, nú eða hvort tveggja. Hún móðir mín vill meina að þetta sé bara aldurinn en ég er ekki frá því að árgangarnir 2004 og 2005 verði stærri en gengur og gerist. Síðastliðin vika var sérlega fengsæl hjá frjósemisgyðjunni, Þórhalla vinkona eignaðist tröllabarn þann átjánda, dreng uppá einar sextán merkur. Í gærmorgun fæddist svo lítill drengur inn í fjölskylduna þegar hún Bjartey systir Hróa ákvað að taka gleðina snemma og koma unganum í heiminn tveimur vikum á undan áætlun. Móður og barni heilsast vel og allir sáttir. Get ekki beðið eftir að sjá myndir af nýja krílinu. Sjálf er ég samt að hugsa um að láta mér nægja að passa annarra manna börn í bili, enda ekki laust við að það sé nóg af þessu fyrir.

14.8.04

Þvi er lokið

Jæja, þá er þessu sumri formlega lokið, ég er hætt að vinna, flyt norður á eftir og svo tekur lærdómurinn bara við á mánudaginn. Síðasta vinnuvikan var reyndar afskaplega róleg og þægileg. Það var of heitt til þess að fólk nennti að sinna erindum við hið opinbera þannig að það var með eindæmum lítið að gera. Ætli þær sitji ekki í súpunni í næstu viku, stúlkurnar í vegabréfadeildinni, þegar allt fólkið sem var að sleikja sólina í Nauthólsvík alla vikuna fattar að það hefði þurft að sækja um vegabréf fyrir löngu síðan. En það er ekki mitt vandamál og mikið er ofboðslega fegin. Yfirmennirnir á stofnuninni sýndu sitt mannlega eðli og gáfu okkur fullt af fríi í tilefni hitans, sem er í raun afskaplega æskileg aðgerð þar sem húsnæðið er með eindæmum illa loftræst og það er einfaldlega ólíft þarna ef hitinn í borginni fer yfir 16 gráðurnar.

Núna sit ég heima hjá mömmu og pabba í rólegheitum og bíð eftir því að þau komi heim úr jarðarför svo að við getum lagt af stað norður yfir heiðar. Ég ætlaði reyndar að fá mér gönguferð í góða veðrinu en hundurinn minn hugrakki hefur bitið það í sig að þora ekki út af lóðinni af ótta við að hlaupa á rafmagnsgirðingar eða komast í tæri við hinar stórvarasömu mjólkurkýr staðarins. Þessi hundur hlýtur að teljast kjánalegasti doberman hundur sem um getur. Til gamans má geta að eina nóttina fór reykskynjari af stað í húsinu og hundurinn varð svo hræddur að hann hoppaði uppí rúm til mömmu og pabba. Einnig hefur hann sofið af sér ítrekaðar tilraunir kattar eins til þess að brjótast inn í húsið í skjóli nætur. Kettirnir okkar tveir hafa þá staðið í því að verja húsið án nokkurrar hjálpar frá "varðhundinum" mikla.

6.8.04

sumarið að syngja sitt síðasta

Það er lítið eftir af vinnu hjá mér. Á föstudaginn eftir viku vinn ég síðasta vinnudaginn þetta sumarið og fer að huga að því að flytjast búferlaflutningum enn einu sinni. Ég vona að næsta sumar sjái Norðurland sér fært að sjá mér fyrir vinnu, það er svo leiðinlegt að vera á svona eilífu flandri. Ég ætla að taka mér eina og hálfa viku í frí áður en ég byrja í skólanum til þess að lesa eitthvað af þessu efni sem ég hefði átt að lesa í sumar, maður þorir vart annað þegar fyrsta próf vetrarins er skráð á þriðja skóladegi. Og okkur fannst það slæmt í fyrra að þurfa að vera í skólanum þegar aðrar deildir voru að dunda sér við að skoða sig um í skólanum á svokallaðri nýnemaviku. Núna þurfum við að fara í próf í fyrstu vikunni. Maður ætti svosem ekki að kvarta, við fáum viku frí í október í staðinn og efa ég ekki að það verði kærkomið. Við hjónakornin gerum ráð fyrir því að fara í okkar fyrstu sameiginlegu utanlandsferð í téðri fríviku og er stefnan tekin á Prag. Gaman gaman.

Ég hlakka alveg skelfilega mikið til þess að þurfa ekki að mæta í vinnuna. Ég þrái að sitja á bókasafninu á Sólborg með kaffi og skólabækur heila daga ótrufluð.