Verslunarmannahelgin framundan
Verslunarmannahelgar eru furðuleg fyrirbæri. Engin starfsstétt vinnur eins mikið og verslunarmenn þessa helgi sem þeim er tileinkuð. Allir hinir sem ekki vinna þjónustustörf sjá sig knúna til þess að yfirgefa heimili sín til þess að standa undir staðalhugmyndum um verslunarmannahelgar. Helst eru það börn og unglingar sem hafa háar hugmyndir um þessar helgar og hafa þau oft ansi furðulegar hugmyndir um það hvað teljist skemmtun. Margir foreldrar eyða miklu púðri og peningum í að forða börnunum sínum frá böli útihátíða og fyllerísskemmtana, kaupa utanlandsferðir eða skipuleggja sumarfrí þannig að öruggt verði að barnið sé ekki í aðstöðu til þess að falla í klær bakkusar þessa helgi. Hinar ýmsu herferðir gegn böli verslunarmannahelgarinnar dynja nú á landsmönnum. Gegn nauðgunum, áfengiskaupum fyrir börn undir tvítugu, hraðakstri.. Hvað er eiginlega að þessari þjóð?! Er það eðlilegt að núna hangi uppi risavaxin plaggöt út um allan bæ með áletruninni "Sumir eiga bara sjens í dauðar stelpur" og eitthvað álíka? Þurfum við virkilega að taka það fram að það sé ljótt að nauðga stelpum? Og eigum við í alvöru að þurfa að gera ráð fyrir því að um helgina verði dauðar stelpur á hverju strái út um allt land? Hvernig væri að við færum að kenna börnunum okkar að haga sér, ala þau upp á skynsamlegan hátt og kenna stelpum að bera virðingu fyrir sjálfum sér og strákum að bera virðingu fyrir stelpum. Þetta er ekki eðlilegt ástand á þessu landi.
Fyrir tæpum þremur árum síðan fór ég í mína fyrstu sólarlandaferð. Ég hafði aldrei áður ferðast með hópi af Íslendingum áður og ég fékk áfall. Hvergi annarsstaðar sá maður að fólk væri komið vel í glas fyrir hádegi, með börnin hlaupandi um allt öskrandi með frekju og dónaskap. Foreldrarnir kipptu sér ekkert upp við hegðun barnanna sinna og hefðu í raun líklega verið ófær um að gera neitt í því hvort eð var vegna ölvunar.
Lærum að ala börnin okkar upp og lærum að meðhöndla áfengi eins og siðmenntuð þjóð!