30.7.04

Verslunarmannahelgin framundan

Verslunarmannahelgar eru furðuleg fyrirbæri. Engin starfsstétt vinnur eins mikið og verslunarmenn þessa helgi sem þeim er tileinkuð. Allir hinir sem ekki vinna þjónustustörf sjá sig knúna til þess að yfirgefa heimili sín til þess að standa undir staðalhugmyndum um verslunarmannahelgar. Helst eru það börn og unglingar sem hafa háar hugmyndir um þessar helgar og hafa þau oft ansi furðulegar hugmyndir um það hvað teljist skemmtun. Margir foreldrar eyða miklu púðri og peningum í að forða börnunum sínum frá böli útihátíða og fyllerísskemmtana, kaupa utanlandsferðir eða skipuleggja sumarfrí þannig að öruggt verði að barnið sé ekki í aðstöðu til þess að falla í klær bakkusar þessa helgi. Hinar ýmsu herferðir gegn böli verslunarmannahelgarinnar dynja nú á landsmönnum. Gegn nauðgunum, áfengiskaupum fyrir börn undir tvítugu, hraðakstri.. Hvað er eiginlega að þessari þjóð?! Er það eðlilegt að núna hangi uppi risavaxin plaggöt út um allan bæ með áletruninni "Sumir eiga bara sjens í dauðar stelpur" og eitthvað álíka? Þurfum við virkilega að taka það fram að það sé ljótt að nauðga stelpum? Og eigum við í alvöru að þurfa að gera ráð fyrir því að um helgina verði dauðar stelpur á hverju strái út um allt land? Hvernig væri að við færum að kenna börnunum okkar að haga sér, ala þau upp á skynsamlegan hátt og kenna stelpum að bera virðingu fyrir sjálfum sér og strákum að bera virðingu fyrir stelpum. Þetta er ekki eðlilegt ástand á þessu landi.

Fyrir tæpum þremur árum síðan fór ég í mína fyrstu sólarlandaferð. Ég hafði aldrei áður ferðast með hópi af Íslendingum áður og ég fékk áfall. Hvergi annarsstaðar sá maður að fólk væri komið vel í glas fyrir hádegi, með börnin hlaupandi um allt öskrandi með frekju og dónaskap. Foreldrarnir kipptu sér ekkert upp við hegðun barnanna sinna og hefðu í raun líklega verið ófær um að gera neitt í því hvort eð var vegna ölvunar.

Lærum að ala börnin okkar upp og lærum að meðhöndla áfengi eins og siðmenntuð þjóð!

29.7.04

Heimasíður hins opinbera og satanísk lykilorð

Eins og flestir þeir sem eitthvað hafa umgengist mig hafa komist að er ég gædd ákaflega furðulegum hæfileika sem nýtist til afskaplega fárra hluta. Ég á einstaklega auðvelt með að muna talnarunur. Kennitölur fyrrverandi kærasta, pin númer á gamla kortareikninga, verð á ótrúlegustu hlutum... ég man það allt. Þessi hæfileiki er í flestum tilfellum vitagagnslaus, sérstaklega þegar litið er til þess að ef að kóði sá er muna skal er blandaður bókstöfum er ekki fræðilegur möguleiki að hann festist í kollinum á mér.

Ef ég mætti ráða væru öll mín pin númer eingöngu sett saman af tölustöfum eða orðum. Já heyrið þið það, bankakerfi, ríkisskattstjóri og LÍN! ORÐ! Ekki eitthvað djöfullegt samsuð og gibberish! ÉG GET EKKI MUNAÐ SVOLEIÐIS! Þessi fötlun mín hefur valdið mér ómældum erfiðleikum, sérstaklega þegar litið er til þess að bókhaldið mitt er ekki uppá marga fiska og mér virðist fullkomlega ómögulegt að týna ekki minnismiðum og öðrum þessháttar hjálpartækjum. Ég gafst t.d. upp á netbankanum eftir að hafa þurft að fara tvisvar í sama mánuði í bankann til þess að fá nýtt notandanafn og lykilorð, sem að sjálfsögðu (STUPID STUPID KB banki) verður að byrja á Z. Hverjum datt í hug að það væri sniðugt að láta notandanafn byrja á Z?! Það gerir það að verkum að ég man ekki einu sinni notandanafnið. Ég get heldur ekki sótt um námslánin mín á form.is eins og aðrir námsmenn vegna þess að einu sinni í fyrndinni þegar ég var í menntaskóla sótti ég um notandanafn þangað til að geta sótt um dreifbýlisstyrk og hef aldrei getað endurheimt það, þar sem ég á hvergi heima á sumrin þegar fólk sækir almennt um námslán og get því ekki beðið um að fá seinni hlutann sendan heim.

Það sem veldur angist minni yfir þessari fötlun minni í dag er að mig langar svo skelfilega mikið að komast að því hvað Íslenska ríkið skuldar mér mikið í ofgreiddan skatt en það get ég ekki þar sem ég týndi satans lykilorðinu inn á rsk.is, að vanda. Og því segi ég: TALNALYKLAR! not some meaningless gibberish!

22.7.04

Lífið hefur gengið sinn vanagang, stóráfallalaust að undanförnu. Fátt hefur dregið til tíðinda þannig, ég er farin að hlakka mikið til að byrja aftur í skólanum, aðallega svo að ég geti hætt að vinna. Annars er ég farin að glugga aðeins í stjórnskipunarréttinn og rauða heftið frá Pierluigi og líst ekki illa á.

Ég hef nýtt undanfarnar helgar í að ferðast út úr bænum og gera eitthvað skemmtilegt. Um síðustu helgi skrapp ég norður til Húsavíkur til að heimsækja Hróa. Við vorum bara í slökun í sveitinni alla helgina, mjög þægilegt. Svo gengum við frá húsaleigusamningi fyrir næsta vetur áður en ég fór í flug á sunnudeginum, við leigjum 80 fm. íbúð á besta stað í bænum, rétt fyrir neðan Menntaskólann. Ég hlakka svo til að flytja aftur til Akureyrar, Sódóma er fín í smærri skömmtum en 3 mánuðir er of mikið.
Um þar síðustu helgi gekk ég Fimmvörðuháls með pabba og nokkrum öðrum, byrjuðum í Skógum og enduðum í Þórsmörk þar sem við grilluðum og gistum eina nótt. Þetta var alveg rosalega skemmtileg ferð og ég gæti alveg hugsað mér að ganga eitthvað meira. Kannski maður rölti Laugaveginn næsta sumar.

Plön fyrir verslunarmannahelgina eru enn í mótun en það lítur út fyrir að við förum inn í Herðubreiðarlindir og tjöldum. Hef reyndar heyrt að ekkert sé þar til að tjalda á annað en grjót þannig að þau plön gætu breyst. Allavega eru engar útihátíðir eða djammferðir á dagskrá, maður er orðinn svo gamall ;)