19.6.04

Íslendingar og 17. júní

Ríkisstarfsmenn eru líklega vanmetnasta fólk í heimi. Fólk virðist telja það sjálfsögð mannréttindi að blóta okkur í sand og ösku, jafnvel beint fyrir framan nefið á okkur. Það er vanþakklátt starf að taka við svívirðingum frá bitrum Íslendingum sem skilja ekki að afgreiðslufrestur á vegabréfum er tíu virkir dagar og að þeir geti ekki fengið undanþágu þó að þeir hafi ákveðið að bíða með það fram á síðustu stundu að endurnýja vegabréfin og þurfi nú hraðafgreiðslu fyrir alla familíuna, 25 þúsund kall takk fyrir. Auðvitað vorkennir maður þessu fólki... þangað til það fer að öskra og æpa og úthúða ríkinu og öllum sem vinna fyrir það auðvirðilega bákn sem ekkert gerir annað en að pína saklausa borgara og hirða af þeim peninga, og veita svo ekki einu sinni almennilega þjónustu. Fólki finnst það líka alveg merkilegt að við getum ekki búið til vegabréf eftir beiðni í tölvupósti, mynd meðfylgjandi í viðhengi. Mikið yrðum við vinsæl á alþjóðavettvangi ef það yrði gert. En við erum Íslendingar og við erum vön því að fá sérmeðferð.

Sautjándi júní er skringilegur hátíðisdagur. Þá fagnar landinn afmæli lýðveldisins með því að spreða ómældum fjármunum í veifur, þyrlur, gasblöðrur o.s.frv. allt í fánalitunum en ekkert hannað fyrir íslenskar aðstæður. Hátíðastressið leggst þyngst á aðalmarkhópinn, börnin, sem þjást fyrri part dags af áhyggjum um það hvort foreldrarnir sjái þeim ekki örugglega fyrir gasblöðru, fána, þyrlu, nammisnuði og kandiflosi. Seinni part dags þjást þau af sykursjokki eftir snuðið og kandiflosið og ofan á það bætist sorg yfir gasblöðrunni sem sveif út í veður og vind eftir 5 mín., þyrlan brotin eftir íslenskt veðurfar og fáninn úttraðkaður á einhverju túninu. Foreldrarnir þjást svo óbeint enda kemur kostnaðurinn fyrst og fremst niður á þeim, auk þess sem þau þurfa að dröslast með sykurpökkuð börn um bæinn, að sjá írafár, fara í hoppukastala, kassaklifur, sápukúluveröldina og allt hitt sem er skylda að upplifa á 17. júní.
Það er í raun mesta furða að ríkið sjái börnum ekki fyrir nauðsynlegum útbúnaði fyrir 17. júní. Hægt væri að útbúa sérstaka fjölskyldupakka sem sendir væru á hvert heimili þann 16. Þá myndu foreldrarnir losna við stressið sem fylgir suðinu í börnunum, börnin myndu mæta úthvíld og útbúin til leiks og bærinn yrði mikið snyrtilegri enda ekki pappír, umbúðir og sprungnar blöðrur fjúkandi um allt. Er það ekki þetta sem fólk vill, að ríkið sjái um allar áhyggjur og vesen, borgurunum að kostnaðarlausu?

6.6.04

Nýtt look

Ég var orðin þreytt á þessu væmna looki sem ég hef verið með undanfarinn mánuð eða svo, ákvað að uppfæra þetta aðeins. Er annars bara að njóta mín í sveitasælunni hjá gamla fólkinu, alveg hreint unaðslegt. Það eina sem skyggir á gleði mína eru endalausar staðfestingar ráðherra landsins á eigin heimsku, hvernig væri t.d. að afgreiða bara þessa f***ing þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þeir byrja að tala um að breyta stjórnarskránni?! Ef þessi fífl sem stjórna landinu bæru örlítið meiri virðingu fyrir lögum landsins og væru ekki svona uppfullir af hroka og dónaskap hefði forseti kannski ekki séð sig knúinn til að nýta málskotsrétt sinn. Grrrrrrrrrrr! og já, það er MÁLSKOTSRÉTTUR ekki neitunarvald, fíflin ykkar! (og þá á ég við fjölmiðla landsins)

5.6.04

Shite hvað það er orðið langt síðan ég hef krotað eitthvað á þessa síðu! Ég vildi að ég hefði einhverja löglega afsökun eins og að það hafi verið svona mikið að gera hjá mér en sannleikurinn er sá að það er einskær leti sem hrjáir mig í bloggskrifum þessa dagana.

Ég get ekki sagt að það hafi neitt stórkostlegt á daga mína drifið síðan síðast en það þarf ekki mikið til að gleðja einfaldar sálir og ég hef skemmt mér ágætlega í Borg óttans. Vinnan er orðin voða mikil rútína, ég bý til nokkur vegabréf að morgni, geng frá póstinum, bý til nokkur vegabréf í viðbót, fer í mat og held áfram að búa til vegabréf að honum loknum til svona hálffimm í besta falli, sjö ef ástandið er sérlega slæmt. Það er í vinnslu að ég verði promotuð í dvalarleyfin síðar í sumar, sem verður ágætis tilbreyting.

Hrói kom í heimsókn um síðustu helgi, sem var stuð, við tókum allan hefðbundna pakkann, fjölskylduheimsóknir, kringlan, sund... Þegar hann var að fara var svo Vigdís forseti að koma í viku starfsþjálfun í boði Sjóvá. Við tókum líka allan hefðbundna pakkann, kaffihús, kringlan, meiri kaffihús... Í gærkvöldi gerðum við okkur svo glaðan dag ásamt Sæju vinkonu hennar Vigdísar (indælis stelpa btw.) og pöntuðum okkur sushi á Nings sem við snæddum heima hjá Sæju. Að máltíð lokinni færðum við okkur á Sólon og þaðan á Felix, þar sem við skemmtum okkur konunglega við að gera grín að hinum gestum staðarins. Meðalaldurinn virtist vera í kringum 18 árin, áberandi Verzló bragur á skrílnum. Tveir frekar dorky gaurar spurðu Vigdísi hvort hún héti Mariko og létu viðbrögð okkar (meiri hlátur) ekki aftra sér frá því að bjóða henni í dans, sem hún afþakkaði pent. Næst var förinni heitið á Viktor en það var pakkað þar þannig að við fórum aftur á Sólon, þar sem við keyptum meira áfengi og gerðum grín að dansandi fólki.Þaðan héldum við svo á Hressó. Þar rákumst við á Óla vin hennar Vigdísar. Ég hef hitt hann einu sinni áður og líkar alveg ágætlega við hann. Hann hefur svona "aristocratic air about him" og það sást glögglega á Hressó í gær, þar sem hann sat með tékkneskan bjór í annarri hendi og dýran vindil í hinni og hallaði sér aftur í stólnum þannig að maður sá hann í anda á stórri skrifstofu með mannhæðarháum glugga fyrir aftan sig með útsýni yfir Esjuna. Anyway, eftir smá stund vorum við allar þrjár í spreng og salernisaðstaðan á Hressó er ekkert til að hrópa húrra fyrir þannig að við ákváðum að fara annað til að komast á salerni sem væri ekki útmigið og kannski með klósettpappír... ef við yrðum heppnar. Eftir að hafa notað salernisaðstöðuna á Viktor, sem btw. er ekki heldur neitt til að hrópa húrra fyrir ákváðum við að segja þetta gott í bili og héldum heim á leið.

Þetta var með öðrum orðum (og styttri) ágætis kvöld en ég komst þó að þeirri niðurstöðu að ég hafi ekki misst af miklu í útlegðinni á Akureyri, djammið í Sódómu er ekki mikið merkilegra en norðan heiða.