Íslendingar og 17. júní
Ríkisstarfsmenn eru líklega vanmetnasta fólk í heimi. Fólk virðist telja það sjálfsögð mannréttindi að blóta okkur í sand og ösku, jafnvel beint fyrir framan nefið á okkur. Það er vanþakklátt starf að taka við svívirðingum frá bitrum Íslendingum sem skilja ekki að afgreiðslufrestur á vegabréfum er tíu virkir dagar og að þeir geti ekki fengið undanþágu þó að þeir hafi ákveðið að bíða með það fram á síðustu stundu að endurnýja vegabréfin og þurfi nú hraðafgreiðslu fyrir alla familíuna, 25 þúsund kall takk fyrir. Auðvitað vorkennir maður þessu fólki... þangað til það fer að öskra og æpa og úthúða ríkinu og öllum sem vinna fyrir það auðvirðilega bákn sem ekkert gerir annað en að pína saklausa borgara og hirða af þeim peninga, og veita svo ekki einu sinni almennilega þjónustu. Fólki finnst það líka alveg merkilegt að við getum ekki búið til vegabréf eftir beiðni í tölvupósti, mynd meðfylgjandi í viðhengi. Mikið yrðum við vinsæl á alþjóðavettvangi ef það yrði gert. En við erum Íslendingar og við erum vön því að fá sérmeðferð.
Sautjándi júní er skringilegur hátíðisdagur. Þá fagnar landinn afmæli lýðveldisins með því að spreða ómældum fjármunum í veifur, þyrlur, gasblöðrur o.s.frv. allt í fánalitunum en ekkert hannað fyrir íslenskar aðstæður. Hátíðastressið leggst þyngst á aðalmarkhópinn, börnin, sem þjást fyrri part dags af áhyggjum um það hvort foreldrarnir sjái þeim ekki örugglega fyrir gasblöðru, fána, þyrlu, nammisnuði og kandiflosi. Seinni part dags þjást þau af sykursjokki eftir snuðið og kandiflosið og ofan á það bætist sorg yfir gasblöðrunni sem sveif út í veður og vind eftir 5 mín., þyrlan brotin eftir íslenskt veðurfar og fáninn úttraðkaður á einhverju túninu. Foreldrarnir þjást svo óbeint enda kemur kostnaðurinn fyrst og fremst niður á þeim, auk þess sem þau þurfa að dröslast með sykurpökkuð börn um bæinn, að sjá írafár, fara í hoppukastala, kassaklifur, sápukúluveröldina og allt hitt sem er skylda að upplifa á 17. júní.
Það er í raun mesta furða að ríkið sjái börnum ekki fyrir nauðsynlegum útbúnaði fyrir 17. júní. Hægt væri að útbúa sérstaka fjölskyldupakka sem sendir væru á hvert heimili þann 16. Þá myndu foreldrarnir losna við stressið sem fylgir suðinu í börnunum, börnin myndu mæta úthvíld og útbúin til leiks og bærinn yrði mikið snyrtilegri enda ekki pappír, umbúðir og sprungnar blöðrur fjúkandi um allt. Er það ekki þetta sem fólk vill, að ríkið sjái um allar áhyggjur og vesen, borgurunum að kostnaðarlausu?