11.5.04

Ég er flutt í bæinn og byrjuð að vinna. Ég leigi lítið herbergi undir súð í gömlu húsi í miðbænum, frekar illa farið en ágætt samt. Þetta er uppi á fjórðu hæð og við sama gang eru tvö önnur herbergi sem deila pínulitlu eldhúsi, þvottaherbergi, sturtu og klósetti. Það er enginn leigjandi í öðru herberginu enn en mér er sagt að þangað flytji í lok vikunnar serbnesk kona sem hvorki tali ensku né íslensku. Það verður forvitnilegt. Hitt herbergið leigir strákur á aldur við mig. Mér leist nú ekki alveg á þetta til að byrja með en ég held að þetta verði bara fínt.

Ég byrjaði að vinna í dag og ég hef á þessum eina degi skannað fleiri myndir en á ævinni samanlagt margfaldað með tíu. Frá átta í morgun og til hálffjögur sat ég við tölvu og skannaði. Það hljómar kannski eins og leiðinlegasta vinna í veröldinni en ég hef kynnst ýmsu verra. Það var æðislegt að eyða heilum degi í að gera eitthvað allt annað en að læra og hvað það var skipti eiginlega minnstu máli. Samstarfsfólkið mitt er líka voða fínt, allir voða jákvæðir og skemmtilegir. Ég held að þetta verði fínt sumar.

Ég komst að því í gær að ég er orðin algjörlega háð sjónvarpi. Þegar ég kem heim úr skólanum á kvöldin er ekkert sem ég þrái heitar en að liggja í sófanum og horfa á eitthvað fullkomlega heilalaust formúlusjónvarpsefni sem krefst þess ekki einu sinni að heilastarfsemin sé á vökustigi. Ég á ekkert sjónvarp. Ég á ekkert sjónvarp og í gærkvöldi var sjónvarpskvöld! Ég missti af sjónvarpskvöldi. *snökt snökt*

Venjulegt mánudagskvöld hefst kl. 20 þegar The O.C. færir sjónvarpsglápurum ferskan skammt af drama. Frá því að þættirnir hófust hefur aðalpersónan lent í fleiri slagsmálum en þættirnir eru margir og a.m.k. tvisvar í fangelsi, kærastan hans overdosaði og besti vinur hans breyttist úr lúða skólans í kvennagull nr. 1. Á hæla O.C. kemur Survivor All Stars, meira drama, meiri spenna, meiri grátur, meiri rómans og fleiri svik en nokkurntíma fyrr. Fregnir herma að Big Tom hafi verið fórnarlambið í þetta sinn. Kl. 22 hefst svo rúsínan í pylsuendanum (hver vill btw. hafa rúsínur í pylsunni sinni? get ekki ímyndað mér að rúsínur séu góðar með tómat, sinnepi og steiktum), CSI, uppáhaldsþættirnir mínir á skjá einum. Þessir þættir eru snilld. Þeir voru á tímabili orðnir þreyttir, þegar Grissom var allt í öllu og orðinn by far mesti besserwisser í sjónvarpi. Tvennt hefur gerst síðan, annars vegar hafa samstarfsmenn Grissoms unnið á og þá sérstaklega konurnar, og hins vegar hefur Grissom fallið niður í annað sætið í besserwisser keppninni í sjónvarpi eftir að L&O C.I. hófu göngu sína. Djöfull sem sá gaur fer í mínar fínustu!

Þessum herlegheitum missti ég af í gær af því að ég á ekkert sjónvarp.

7.5.04

Jæja, skólinn er nokkurn veginn búinn, bara ein ritgerð eftir. Ég er að fara suður í fyrramálið, búin að vera á fullu að pakka og ganga frá ýmsum atriðum áður en eg fer, tíminn virðist samt hlaupa frá mér og enn og aftur bölva ég bönkum landsins fyrir að loka kl. 4. Ég er búin á því eftir veturinn. Mér finnst samt ótrúlegt að þetta sé búið, mér finnst ég hafa verið að byrja í kennilegu lögfræðinni hjá Pierluigi Chiassoni fyrir tveimur vikum síðan, ekki níu mánuðum. Ég er einu ári nær því að verða lögfræðingur, fjögur eftir ;)