28.4.04

Adam var ekki lengi í Paradís og tölvunotendur ekki lengi í innra lesrýminu. Það er búið að afturkalla afturköllun bannsins. Ég nenni ekki að rífast yfir þessu lengur. Ég þarf að skrifa ritgerð og heimapróf í vikunni, fara í próf í næstu viku og skrifa aðra ritgerð að því loknu og ég hef hreinlega ekki orku í að rífast yfir þessu. Óþolandi að geta ekki verið viss um það hvar ég get verið á meðan ég er að klára þessa törn, samt. Ef ekki úr rætist hugsa ég að ég fari suður strax eftir 4. maí og klári ritgerðina þar. Vona bara að það verði búið að leysa úr þessu fyrir næsta haust.

27.4.04

Victory is ours!
Fartölvubannið hefur verið afturkallað og nú megum við vera í lesrýminu. Fólk með ofvirkar heyrnarstöðvar var fært um set í stofur K-eitthvað og K-eitthvað, couldn't care less hvar þær eru, ég ætla ekkert að vera þar!

24.4.04

Allt virðist ætla um koll að keyra í nemendapólitíkinni þessa dagana, laganemar komnir í stjórn deildarfélags kennaranema, ósvífnir aðiljar úthýsa tæknivæddum nemendum skólans úr bestu lesaðstöðunni og hugmyndir um vantraustsyfirlýsingu á formann FSHA fá byr undir báða vængi. Félagi Hreiðar hefur ritað pistil um mál þessi sem vert væri að líta á, á meðan ég hef ekkert vitrænt til málanna að leggja vegna vinnuálags.

22.4.04

Gleðilegt sumar gott fólk!

Samkvæmt fornu íslensku tímatali er fyrsti dagur sumars í dag. Það sést svosem ekki á veðrinu en vissulega er komið sumar í fólk og brúnin tekin að léttast á fólki þrátt fyrir yfirstandandi lestrartörn í skólanum. Ég er byrjuð að undirbúa sumarið af fullum krafti, komin með sumarvinnu og húsnæði við Laugaveginn, ég ætla að fá Reykjavíkursumarið beint í æð fyrst að ég verð þar á annað borð. Nú á ég bara eftir að kanna sumaropnanir á Þjóðarbókhlöðunni og finna húsnæði fyrir köttinn minn og þá er ég all set fyrir sumarið.

Yfirvofandi sumar hefur endurhlaðið þurrausnar orkustöðvar mínar og auk þess að hafa gengið frá ýmsum formsatriðum varðandi sumarvinnuna og slíkt hefur áhugi minn á náminu eflst til muna. Nú sit ég í kaffistofunni í skólanum í pásu en síðustu klukkustundir hef ég verið að kynna mér kenningu Eskridges um statutory interpretation. Mér er farið að finnast þetta bara gaman! Á morgun ætla ég að lesa upp í comparative criminal law. Ég hef komið sjálfri mér töluvert á óvart með því að finnast lögskýringarnar miklu meira spennandi en criminal law. Til að draga enn frekar úr ástundun minni í criminal law erum við líka í comparative constitutional law sem mér finnst líka mikið auðskiljanlegra og skemmtilegra en criminal law. Það þurfa líklega alltaf að vera nokkrir furðufuglar í hverjum bekk :)

21.4.04

Mikið getur verið þreytandi að sitja heilu og hálfu dagana í skólanum og skilja ekki neitt hvað er að gerast. Þannig líður mér í lögskýringum þessa dagana. Til að byrja með hugsar maður með sér, jú, þetta er líklega mér að kenna, ég hef ekki lesið nógu vel heima, ég þarf að taka mig á. Svo reyni ég að lesa, kemst að því að þetta er nú ekkert óyfirstíganlegt, mæti í tíma hugsandi: í dag ætti ég að vera með á nótunum. En NEI! Eftir tuttugu mínútur kemst ég að því að ég misskildi allt og þetta er miklu flóknara en mér hafði nokkurntíma dottið í hug og þá þrjá og hálfan tíma sem eftir er sit ég eins og illa gerður hlutur og reyni að láta lítið fyrir vitskorti mínum fara. Oh, what an unreasonably difficult life.

P.S. veit einhver um húsnæði fyrir mig í Rvk í sumar?

17.4.04

Lífið er erfitt þessa dagana. Í skólanum tekur ein törnin við af annarri og sér ekki fyrir endann á stressinu. Til að bæta gráu ofan á svart var okkur úthýst úr eina lesrými skólans sem er nothæft svo að allt liggur á huldu um það hvar ég eyði tíma mínum þessar síðustu vikur skólaársins.

Í gær skiluðum við ritgerð til Rachael um hjúskapareignir. Rachael er alltaf söm við sig og lætur okkur vinna stór verkefni sem gilda lítið. Það voru allir á haus í þessu verkefni í marga daga og samt gildir það bara einhver skitin 25%. Við höfum skilað heimaprófum sem kröfðust mun minni vinnu en þetta og giltu 60%. Þetta er rugl. Það þýðir samt svosem ekki mikið að vera að rífa sig yfir þessu núna, önnin er að verða búin, sumarið framundan. Ég er farin að hlakka mikið til sumarsins. Ég verð að vinna í Útlendingastofnun, reyndar bara að svara í síma og sækja kaffi og svona en það er samt mikil tilbreyting frá þessu harki í skólanum. Mikið verður ljúft að vera með fastan vinnutíma og vera actually búin þegar maður kemur heim úr vinnunni. Ég hef líka aldrei verið heilt sumar í Reykjavík áður þótt ég hafi búið þar í þrjú ár.

Sumartíminn hefur sína kosti, eins og aðrar árstíðir. Mér finnst best að gera eitthvað allt annað á sumrin en á veturna, fá smá tilbreytingu í lífið. Ég hef líka oft verið að vinna í öðrum landshluta en ég eyði vetrum og það finnst mér líka frábært, þótt ég sé eiginlega að verða komin með ógeð á því núna. Það verður alltaf meira og meira vesen að flytja eftir því sem bætist í búslóðina. Sem betur fer þarf ég ekki að flytja mikið með mér þetta árið þar sem ég fæ að skilja mikinn hluta húsgagna eftir í íbúðinni sem ég bý í núna. En jæja, það þýðir ekki að missa sig í einhverjum draumórum um sumarið, það er enn tæpur mánuður eftir af önninni og nóg eftir af verkefnum og prófum.

15.4.04

Seinna fartölvubann

Enn er búið að úthýsa okkur siðmenntuðum nemendur skólans úr besta lesrýminu. Ég skrifaði grein og sendi á fsha.is um þetta mál og ákvað að henda henni hingað inn líka.

Mikið er það böl sem fylgir fartölvunotkun í Háskólanum á Akureyri. Þegar undirrituð skráðisig til náms í lagadeild (afsakið, skor er bara ekki orð) Háskólans á Akureyri var tekið fram ínámslýsingu að mælt væri með því að nemendur hefðu fartölvur til umráða. Undirrituð hafði einmitt nýlega fjárfest í slíku tæki og reiknaði hún með því að fyrst mælt væri með notkunþeirra væri góð aðstaða til notkunar þeirra í skólanum. Fljótlega kom þó annað í ljós. Þaðvakti snemma athygli laganema að stofa sú sem þeim var ætluð til afnota um veturinn var sérdeilis illa búin innstungum, auk þess sem ekkert netsamband var í henni. Til að bætaástandið enn frekar geisaði þvílíkur vírusfaraldur innan skólans að undirrituð hefur aldrei séðneitt því líkt, og tók nú steininn úr þegar enn hafði ekki náðst að komast fyrir þennan faraldur þegar mánuður var liðinn af skólaárinu en velflestir aðrir skólar landsins höfðu þá fyrir löngulosað sig við óværuna. Fljótlega lærðist fartölvunotendum þolinmæði og nægjusemi. Deildu þeir innstungumbróðurlega og þegar líða tók á vetur komst netsamband á í stofu laganema. En Adam var ekkilengi í Paradís. Þegar nemendur snéru aftur til vinnu eftir jólafrí kom í ljós að fartölvunotendum hafði verið úthýst úr innra lesrými bókasafnsins, eina stað skólans þar semsæmilegt næði er til lestrar eftir að margumrædd glerhurð var sett upp. Þetta olli miklum kurrmeðal fartölvunotenda og var brugðið á það ráð að kjósa um það hvort fartölvur skyldu leyfðar í lesrýminu eður ei. Sú kosning var mörgum vanköntum búin og vart marktæk, en fórþó svo að hnífjafnt var á milli fylkinganna. Umræðan féll niður um stund en hefur nú, eftirstjórnarskipti, verið endurvakin. Fartölvunotendur hafa enn verið bannaðir úr lesaðstöðunni og sagt að nota aðra aðstöðu skólans. Þetta er með öllu óásættanlegt.Ef setja á upp fartölvu-, síma-, geislaspilara-, brauðrista- og gangráðalaust lesrými í skólanum verðum við hin að fá aðra aðstöðu, jafn góða, til umráða. Basta. Það þýðir ekki að segja okkurað nota aðstöðu sem aðeins er opin hluta úr sólarhring, er ekki ætluð sem lesaðstaða eða erekki notuð sem slík. Eftir að áðurnefnd glerhurð var sett upp hefur þorri nemenda skólans talið að engin ástæða væri til þess að hafa þögn í fremri hluta lesrýmisins, auk þess sem þar eraragrúi borðtölva sem gefa frá sér mun meiri hávaðamengun en fartölvur. Gömul og slitinlyklaborð og viftur sem sæma orrustuþotum eru mun meiri hávaðavaldar en litlar og nettar fartölvur með þar til gerðum lyklaborðum. Hér með krefst undirrituð, og skorar á aðrafartölvunotendur að gera slíkt hið sama, sömu aðstöðu og réttinda og aðrir nemendur skólans.
Virðingarfyllst,
Sólveig Hauksdóttir,
laganemi.

14.4.04

Liðin páskahátíð

Jæja, hið meinta páskafrí er liðið og alvaran hefur tekið við á ný. Ég átti góða páska, var hjá mömmu og pabba í þrjá daga ásamt kærastanum, bara í rólegheitum í sveitinni. Við gerðum eiginlega ekki neitt, bara þetta venjulega, fórum í gönguferð suður í land að skoða hrafnshreiður, það er enn of blautt til að fara út í kistu til að skoða arnarhreiðrið, skoðuðum nýja fjósið, bara svona þetta sem maður gerir í sveitinni. Við fórum reyndar ekkert á hestbak en það verður bara að bíða betri tíma. Að sjálfsögðu fórum við í sund í Borgarnesi ásamt ÖLLUM hinum íbúum og sumarbústaðafólki Borgarfjarðar. Á Páskadag fórum við svo uppí sumarbústað til afa og kærustunnar hans, Sigríðar. Það var voða fínt, við gengum meðfram ánni, skoðuðum Sveðjufoss og gengum uppá Svartaskóla, bara þetta sem maður gerir þegar maður fer í sumarbústaðinn hans afa. Seinnipart Páskadags keyrðum við norður aftur og Gerald og Vigdís fengu far hjá okkur. Við Vigdís skemmtum okkur konunglega á leiðinni en Gerald svaf og Hrói keyrði, ásamt því að furða sig á fíflalætunum í okkur. En aksturinn var ekki búinn þegar við vorum komin á Akureyri. Við Hrói fórum rakleiðis austur í Aðaldal til foreldra hans til að skila bílnum. Við gistum þar um nóttina enda er aldrei farið snemma að sofa í heimsóknum á Sand og hefðum við ekki komist á stað aftur fyrr en um tvöleytið hið fyrsta. En á annan í páskum tók alvaran við á ný, vinna og lærdómur hjá okkur báðum. Ég er farin að telja dagana sem eftir eru, endaspretturinn á önninni verður geðveiki sýnist mér. Að lokum vil ég benda á skemmtilega lýsingu Vigdísar forseta á samnemendum okkar.

7.4.04

Fegurðarsamkeppni framhaldsskólanna

Í Fréttablaðinu í dag er opið bréf frá staðalmyndahópi Femínistafélags Íslands til menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þar er deilt á "Fegurðarsamkeppni framhaldsskólanna", nýjasta innleggið í fegurðarsamkeppnaflóðið. Bent er á að samkeppni þessi er ekki á vegum framhaldsskólanna, Félags Framhaldsskólanema eða nemendafélaga skólanna. Það sýnist mér vera klárt brot á 25. gr. laga nr. 8 frá 1993, samkeppnislaga, og er sjálfsagt að gera viðeigandi athugasemdir við það. Hins vegar er bréf þetta ekki skrifað af þessu tilefni heldur því að með keppni þessari sé verið að kenna stúlkum á aldrinum 16-19 ára að fegurð sé besta leiðin til að komast áfram í veröldinni. Hvenær ætla kvenréttindafrömuðir að jafna sig á því að konur eru konur?!

Fegurðarsamkeppnir eru komnar til að vera. Allar stelpur vilja fá viðurkenningu um að þær séu fallegar og margar þrá opinbera viðurkenningu, s.s. með þátttöku í fegurðarsamkeppnum. Þetta þýðir ekki að stelpur haldi að þær komist ekkert áfram í lífinu öðruvísi en að vera fallegar. Þetta þýðir heldur ekki að stelpurnar sem taka þátt í fegðurðarsamkeppnum verði undirlægjur karlmanna restina af ævinni. Hvað halda þessar femínistat****r eiginlega að þær séu? Hvaða rétt hafa þær á að dæma það hvernig annað fólk lifir lífi sínu? Eru fegurðarsamkeppnir ósiðlegar eða jafnvel dónalegar? Nei. Gera þær lítið úr keppendunum? Nei. Það liggur í hlutarins eðli að þær fókusera ekki á gáfur keppendanna eða hæfileika þeirra enda hétu þær varla fegurðarsamkeppnir ef svo væri, en þær eru ekki niðurlægjandi á neinn hátt.

Í bréfinu segir enn fremur að keppnin sé skipulögð á þeirri forsendu að verið sé að gefa ungum konum gullið tækifæri til að komast áfram í lífinu. Ég hef séð auglýsingar fyrir þessa keppni og ég sé engin merki þessa. Fullyrðing þessi kann að hafa átt við um fegurðarsamkeppnir fyrir tuttugu, þrjátíu árum síðan, þegar þátttaka í fegurðarsamkeppni var ávísun á flugfreyjustarf, "draum hverrar konu". (Já, hvern dreymir ekki um að þjóna fullum bissnesskörlum í þröngu rými, þurru lofti og í tíu km. hæð?) Svona er þetta ekki lengur. Stelpur gera sér grein fyrir því að algjör minnihluti þeirra mun geta byggt starfsframa sinn á útlitinu einu saman, nema að þær séu þeim mun vitlausari og þá er kannski enginn skaði skeður hvort sem er.

Bréf þetta þykir mér móðgun við ungar konur. Mér þykir það gera lítið úr gáfum þeirra og áhugamálum. Hvenær ætla femínistar að skilja að meirihluti kvenna hugsar um útlitið fyrst og fremst fyrir sjálfar sig en ekki fyrir maka sinn eða aðra karlmenn? Kannski þær ættu að líta í spegil sjálfar af og til.

Þegar umræða af þessu tagi fer af stað minnist ég orða tengdamóður minnar sem vill meina að konur eigi að prísa sig sælar að vera ófríðar, vitlausar og leiðinlegar. Þeim virðist nefnilega ganga miklu betur að ná sér í karlmenn. Ég get sagt af eigin reynslu að mörgum karlmönnum finnst sér ógnað af myndarlegum, gáfuðum og skemmtilegum konum og þeir kæra sig margir hverjir ekkert um svoleiðis kvenfólk, enda er stór hluti kvenna sem komist hafa langt í atvinnulífinu og eru auk þess fallegar einnig einstæðar.

6.4.04

Meint páskafrí og fjölskyldustress

Hún móðir mín er alveg að ganga af göflunum þessa dagana yfir páskunum. Veðurguðirnir fóru með fyrri plön hennar í vaskinn enda hæpið að reikna með skíðafæri á klakanum eins og veðurfarið hefur verið undanfarin ár. Hún er búin að tékka allsstaðar. Hún bindur enn vonir við að skíðafærið verði í lagi hér norðan heiða en allur snjór virðist gufaður upp fyrir sunnan. Hún athugaði með Snæfellsjökul í dag og þar hefur lyftan verið lokuð svo mánuðum skiptir en enn er boðið uppá ferðir með snjótroðara. Skíðabrekkan er ca. 6 km og fíflin rukka þrjú og fimm á manninn með snjótroðaranum. Hvaða heilvita maður borgar þrjú og fimm fyrir 6 km skíðaferð?! Snjóleysið leggst þungt á konugreyið og hún er í öngum sínum yfir þessu. Ég hef minni áhyggjur af því hvernig ég skuli verja tíma mínum í páskafríinu af því að það er þegar ákveðið. Hið meinta páskafrí sem skólinn hefur af örlæti sínu úthlutað okkur, þrír dagar í kennslu to be exact, er líkara verkefnaviku en fríi.

5.4.04

Séríslenskir stafir horfnir að eilífu úr eldri bloggum

Yes, the rumors are true. Eldri blogg eru héðan í frá ólæsileg. En Bjarki bjargvættur er búinn að laga alla fyrstu síðuna fyrir mig þannig að hún er allavega í lagi. Bjarki er maðurinn! Þrefallt húbba fyrir honum! <:o)

Nýtt look

Ég hef fengið nýtt útlit á bloggið mitt. Töluverð gleði og hamingja fylgir þessum merka áfanga en þó fylgir sá leiði böggull skammrifi að engir íslenskir stafir hafa sést síðan síðan öðlaðist þetta glæsilega útlit.