3.8.06

nytt blogg

jamm jamm, það er líklega ekki hægt að fara fram á að þjónusta sem er frí virki.

nýtt blogg: http://www.sollalitla.blog.is
komin færsla og allt ;)

1.8.06

hætta að blogga?

Ég held svei mér þá að blogger sé bara búið að ákveða að ég eigi að hætta að blogga. Ég er alltaf að reyna (ok af og til allavega) að blogga en ég get aldrei birt það sem ég skrifa! Alveg óþolandi! Það endar með því að ég færi mig enn um set á vefnum. Er reyndar búin að vera að spá hvort þetta nýja íslenska þarna á mbl.is vefnum sé kannski málið... Æ veit ekki.

Ekki margt að frétta frekar en venjulega. Við fórum í útilegu um síðustu helgi með Bjarteyju og strákunum hennar og það var æðislega fínt. Við hittum þau á Mývatni á laugardagsmorguninn og keyrðum upp í Möðrudal, þar stoppuðum við og fengum okkur nesti og skoðuðum kirkjuna - eins og hægt var, hún var læst. Svo keyrðum við niður í Jökuldalinn og fórum í svona "húsdýragarð", þ.e. bóndabæ sem er með allskonar dýr í búrum. Það var rosa skemmtilegt. Krakkarnir voru alveg upprifnir yfir dýrunum. Þetta var líka mjög fjölbreytt og svona tegundir sem maður sér ekki á hverjum degi, eins og fasanar (reyndar eiga tengdó fasana þannig að við þekkjum þá alveg), kjötkanínur og hreindýr.

Þegar allir voru búnir að skoða nægju sína héldum við áfram og keyrðum í Hallormsstaðaskóg þar sem við tjölduðum (Atlavík). Það var svaka kósý.

Daginn eftir keyrðum við upp á Kárahnjúka og horfðum á mótmælendur leggjast á vegi. Við sáum eiginlega ekki mikið annað fyrir þoku. Ja, ég segi það nú kannski ekki, maður kemst nú eiginlega ekki hjá því að sjá þessar stíflur! Þetta er svo risavaxið! Stórar búkollur (tvíbreiðir vörubílar með mannhæðarháum dekkjum) líta út eins og leikfangabílar uppi á þessu! Við vorum öll sammála um að það hefði verið skemmtilegra að vera á jeppa, maður kemst svo takmarkað þarna um á fólksbíl. En samt snilld að geta allavega séð þetta. Mamma og pabbi ætla uppeftir á Econoline um næstu helgi, ég verð bara að fá að sjá myndir hjá þeim.

Við fórum líka í upplýsingamiðstöðina í Fljótsdal. Það var virkilega fróðlegt. Nema Íris datt og slasaði sig á einhverjum fokking tröppum sem virtust ekki þjóna neinum tilgangi, spurning um að fara í mál við Landsvirkjun? Ég fékk eiginlega nett sjokk þegar ég sá hvernig á að ganga frá affallinu niðri í Fljótsdal! Fyrir þá sem ekki vita verður semsagt gríðarlegt rör inni í Valþjófsstaðafjalli (held að ég fari rétt með örnefnin) þar sem vatnið nær fallhraða. Svo myndast rafmagnið neðst í því röri, inni í fjallinu. Þaðan rennur vatnið svo í stokk út úr fjallinu og út í Lagarfljót. Eins og gefur að skilja er þarna um talsvert vatnsmagn að ræða og mun stokkurinn verða heljarinnar mannvirki. Maður sá þetta ekki alveg fyrir sér þarna í sveitasælunni!

En ég verð að segja að Fljótsdalurinn er ennþá fallegri en mig minnti. Fjöllin þarna eru svo sérstök og falleg! Æi mér finnst eiginlega bara allt þetta svæði æðislegt. Veit ekki hvað það er en svæðið frá Mývatni og austur að Fljótsdal hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Möðrudalur og Jökuldalur og ég tala nú ekki um Breiðdalinn og það svæði sem nýji þjóðvegur 1 liggur í gegnum. Hrikalega flott.

Jæja, þá er að vita hvort ég get birt þetta! Ef ekki þá fer ég NÚNA og bý til nýja síðu!

19.7.06

Hvað er malið?!

Af hverju er tankurinn alltaf tómur þegar bensínverðið er hækkað?

Ég er að spá í að fara bara að nota strætó.

17.7.06

óskipulagt bloggleysi

Ég veit ekki alveg hvað er búið að vera málið með bloggið mitt undanfarið en mér hefur allavega gengið afspyrnu illa að pósta því sem ég er búin að skrifa. Þannig að ég er búin að skrifa marga pistla en hef ekki getað birt þá. Skrýtið.

Við Íris vorum allavega bara að koma heim úr 6 daga heimsókn til mömmu og pabba á Hvanneyri. Það var alveg ljómandi nema um miðbik heimsóknarinnar fór ég að hafa áhyggjur af ritgerðinni minni. Ég skildi nefnilega tölvuna eftir heima. Gáfuleg... Ég þarf allavega að spýta í lófana og fara að klára þetta helvíti svo að þetta sé ekki svona hangandi yfir mér endalaust.

Annars hef ég verið í mikilli sjálfsskoðun undanfarna daga í kjölfar samtals við hann karl föður minn um slík mál. Ég er með ný markmið í lífinu, að bæta sjálfa mig og hætta að láta annmarka eða persónueiginleika annarra fara í mínar fínustu. Ég ætla líka að æfa mig í að segja það sem ég meina og meina það sem ég segi, þ.e. að vera ekki að láta gamminn geysa um eitthvað bull og vera hreinskilnari. Þetta eru augljóslega háleit markmið og ég býst við því að mér endist ekki ævin til að ná þeim. En það er alltaf hægt að reyna að bæta sig.

Jæja, hef þetta ekki lengra í bili, mín bíður kúkableyja og öskrandi barn sem er að dunda sér við að troða öllu í skiptitöskunni á hausinn á sér (bleyja, sundbolur, smekkur og peysa hafa þegar verið reynd án mikils árangurs).

29.6.06

Kveðum niður verðbolgudraugin!

Já, ég vil að sjálfsögðu leggja mitt af mörkum við að ná tökum á verðbólgunni og mun feta í fótspor Bjarka og fella niður gjaldtöku á blogginu mínu. Áskriftin mun því héðan í frá vera lesendum mínum að kostnaðarlausu. Þetta er fyrst og fremst táknræn aðgerð en til að ná verðbólgunni niður þurfa allir að leggja sitt lóð á vogarskálarnar, hversu lítið sem það kann að vera. Ég mun einnig falla frá fyrirhuguðum innheimtuaðgerðum á hendur þeim lesendum sem hafa ekki hingað til greitt áskriftargjaldið og fella niður uppsafnaðar skuldir þeirra. Sjá nánar um málið á gjaldfrjálsu bloggsvæði Bjarka.

21.6.06

letibloggari

Það er ég.

Netið er búið að liggja niðri hjá okkur í marga daga þannig að ekkert blogg og ekki einu sinni tékkað á email.

Anyhow, lítið að gerast hjá okkur þessa dagana, ég bara nýt þess að vera heima með Írisi. Hún er alltaf að læra eitthvað nýtt, farin að segja mamma og datt - segir reyndar alltaf svona 'dah - tt', ægilega krúttlegt :) Svo er hún alltaf að æfa sig að labba, hún tekur mest svona kannski 6-8 skref þegar hún er að labba í fangið á mér en svona 3-5 ef hún er að labba á milli hluta. Svo erum við búnar að fara mikið í sund undanfarið og það er alltaf ægilega skemmtilegt. Við förum reyndar ekkert í þessari viku af því að við erum báðar með smá kvef. Svo er bara vinna um helgina og líklega þarnæstu helgi líka - sjáum samt til, mamma á afmæli 1. júlí þannig að það gæti verið að maður geri eitthvað sniðugt. Það er samt ekkert stórafmæli, hún er að verða 45 ára, kellan, ung eins og lamb í haga ;)

Vá, ég hlýt að hafa sett met í að vera lengi að skrifa blogg núna, það myndi ekki koma mér mikið á óvart að allt hryndi um leið og ég reyndi að publisha. Ég ætla að fá mér ís.

8.6.06

tilvistarkreppa

Já, ég veit bara ekki neitt í minn haus þessa dagana. Ég veit ekki hvort það er bara af því að ég meika ekki að hugsa um þessa satans ritgerð sem ég á ennþá eftir að klára eða hvort ég er almennt bara að átta mig á einhverju sem ég hefði átt að fatta árið 2003. Ég er allavega ekki að meika tilhugsunina við að verða lögfræðingur. Ég meina, how boring is that?! Hvað á ég eiginlega að gera þegar ég útskrifast? Frá því að ég byrjaði í þessu námi hafa vinir mínir verið að spyrja mig hvernig ég meika eiginlega þetta nám og hvort þetta sé ekki ógeðslega leiðinlegt en mér hefur alltaf fundist námið alveg ágætt. Vandinn er bara að mig langar ekkert að vinna sem lögfræðingur. Ég klára B.A. gráðuna um jólin og þá tekur ML námið við, 2 ár í viðbót í námi sem ég veit ekki ennþá hvernig ég asnaðist í yfir höfuð. B.A. gráða í lögfræði er svona eins og að klára 3 ár í læknisfræði - það gagnast manni alveg voðalega lítið á vinnumarkaðinum. Samt er ég að spá í að fara ekki í ML námið. Ég er ekki viss um að ég vilji safna námslánum í tvö ár í viðbót ef mig langar svo ekkert að verða lögfræðingur. En ef ég klára ekki ML þá verð ég að gera eitthvað annað því að eitthvað verð ég víst að vinna við í framtíðinni. Hvað það á að vera veit ég bara ekki.

6.6.06

Stora Framsoknarmalið

Fyrir nokkrum mánuðum síðan lét ég út úr mér í bríaríi að lýðræði á Íslandi væri djók. Um leið og orðin sluppu af vörum mínum sá ég eftir þeim, ég hafði kveðið of hart að orði að eigin mati. Eftir sveitarstjórnarkosningar og stóra framsóknarmálið undanfarna daga stend ég fast við þessi orð. Ég á ekki orð yfir þessari heimsku Framsóknarmanna að halda að það bjargi virkilega flokknum að skipta um formann! Vandi flokksins er miklu meiri en svo. Það sem flokkurinn hefði þurft að gera til að bregðast við því afhroði sem flokkurin beið í sveitarstjórnarkosningunum er að fara EKKI í sveitarstjórnir um allt land með einn fulltrúa heldur vera eitt kjörtímabil í stjórnarandstöðu og nýta tímann í að byggja upp flokkinn að innan, skýra stefnu hans og sanna fyrir kjósendum að hann standi raunverulega fyrir eitthvað, þ.e. að kveða niður raddir um að flokkurinn sé ekkert annað en samansafn af framapoturum, bandalag um völd. En flokksmenn eru ekki svo klárir. Í staðinn halda þeir áfram að berja höfðinu við steininn og halda að það lækni öll sár að setja viðkunnalegri mann í formannsstólinn.

Stóra Framsóknarmálið er kornið sem fyllir mælinn. Hrókeringar í ríkisstjórninni hafa aldrei verið meira en á yfirstandandi kjörtímabili og nú þegar ljóst er að annar ríkisstjórnarflokkurinn riðar til falls væri það öllum best að boðað væri til kosninga í sumar.

Ég hef talað.




P.S. Er það bara ég eða eru málhöltu börnin í upphafi veðurfrétta á NFS/Stöð 2 nánast eins slæm og @#$ jólakrakkinn í malt og appelsín auglýsingunum?

31.5.06

Bloggið mitt hefur hafnað mer O.O

Ég er búin að gera ítrekaðar tilraunir undanfarna daga til að blogga og ekkert gengur. En hver veit, kannski tekst mér að birta þessa færslu... Íris er búin að vera lasin síðustu daga. Hún fékk alveg heiftarlega ælupest og er svo búin að vera slöpp og með hita. Hún er samt orðin sæmilega hress núna þó að matarlystin sé ekki komin aftur. Við erum annars að fara suður á eftir. Hrói verður eftir en kemur á föstudag eða laugardag. Vala systir er að fara að fermast á sunnudaginn. Ég ætlaði sko þokkalega að vera búin að þrífa íbúðina hátt og lágt áður en við færum en það gerðist ekki. Ég var nýbyrjuð á ofur-þrifaplaninu mínu þegar Íris varð lasin. Það á bara ekki fyrir mér að liggja að ná að skilja við íbúðina í almennilegu ástandi. Það kemur alltaf eitthvað uppá þegar við erum að fara eitthvað!

Ég ætlaði að skrifa eitthvað um sveitarstjórnarkosningarnar í einum af þessum pistlum sem ég hef ekki getað birt en núna nenni ég því ekki. Ég er komin með ógeð á umfjöllun fjölmiðla um þetta. Öll umfjöllun hefur verið svo ferlega yfirborðskennd. Kannski voru þetta bara yfirborðskenndar kosningar. Engin raunveruleg kosningamál í mörgum bæjarfélögum eins og best sást á auglýsingum Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði þar sem slagorðið var "skiptum um lit á bænum". Það var semsagt ekkert sem þeir gátu gert athugasemd við í stjórn bæjarins þannig að þeir báðu kjósendur bara að kjósa sig af því að þá langaði í bæjarstjórn. Alveg andlaust sko. Ég hefði allavega verði sérstaklega ákveðin í að kjósa EKKI Sjálfstæðisflokkinn í Hafnarfirði ef ég byggi þar, bara af því að mér fannst þetta svo ÖMURLEG auglýsingaherferð!

Anyhow, best að fara að pakka.

18.5.06

no damn euro trash freak

Ég get ekki orða bundist lengur. Ég hætti að horfa á Júróvisjon fyrir nokkrum árum síðan af því að ég fékk bara of mikinn kjánahroll af því. Núna hef ég hækkað kjánastuðulinn svolítið og treysti mér til að horfa á þetta aftur. What a freak show! Við erum að tala um að Finnar og Íslendingar virðast vera eina fólkið með viti í þessu prógrammi! Eftir að hafa séð marga misvel klædda keppendur stigu portúgölsku stelpurnar á svið. Þá tók algjörlega steininn úr. Hvað er málið með að vera ekki í neinu að neðan?! Það er greinilega það heitasta í dag. Allavega ef marka má Júróvisjon. Svo á eftir Portúgal kom framlag Svíþjóðar. Jú, hún var í einhverju að neðan en ég gat ekki betur séð en að skórnir væru áfastir buxunum. Semsagt vöðlur með pinnahæl og mjórri tá. Heyrðu, svo næsta lag, ég man ekki einu sinni hvaða land það var. Það var allavega sungið af annarri sænskri stelpu sem hafði reyndar ekki fest skóna við buxurnar en var í hvítum stígvélum upp á mið læri! Ég held bara að Finnar ættu að vinna þetta í ár.

Mér finnst samt snilld hvaða áhrif Silvía Nótt hefur haft á þjóðina undanfarið. Aldrei þessu vant er enginn viss um að við vinnum, fólk er ekki einu sinni visst um að við komumst í aðalkeppnina. En allir halda með Silvíu - ja, eða hafa allavega áhuga á að fylgjast með henni.